Laugaás

Veitingar

Eftir dýfuna fyrir ári hefur Laugaás tekið sér tak og eldað betur í vetur en nokkru sinni fyrr, að vísu á mun hærra verði. Hann hefur skilið við verðlagsbotninn og er kominn í flokk með Pottinum og pönnunni, Tilverunni, Jómfrúnni og Kínahúsinu. Þríréttuð máltíð með kaffi hefur hækkað úr 1.500 krónum í hittifyrra í 1.800 krónur í fyrra og núna í 2.200 krónur. En góðærið hefur náð til viðskiptavinanna, sem sækja staðinn eins ótrauðir og áður.

Matreiðslan hefur snarbatnað. Ánægjulegastir eru þriggja rétta tilboðsseðlar, sem náðu hámarki fyrir jólin, þegar velja mátti milli villigæsar, langvíu, sels, nautasteikur og lúðu á 2.000 krónur, rjúpu á 2.300 og hreindýrs á 2.500 krónur, allt með súpu og eftirrétti. Undanfarið hafa tilboðin verið hversdagslegri og ódýrari, en í öllum tilvikum með hagstæðum hlutföllum verðs og gæða.

Á tímabili var súpa dagsins meira að segja stundum tær grænmetissúpa, en ekki uppbökuð hveitisúpa. Þær hafa þó reynzt vera of mikill klassi fyrir viðskiptavinina, svo að þykku súpurnar eru komnar aftur, lífseigasti minnisvarði hinna myrku áratuga í íslenzkri matargerð. Meðal góðra grænmetissúpna voru sterk tómatsúpa og tómat- og paprikusúpa.

Laugaás er því miður hættur að vera fiskréttastaður með fjölbreyttu tilboði dagsins. Réttir dagsins hafa að undanförnu aðeins verið þrír hverju sinni, tveir fiskréttir og einn pastaréttur, sem kosta hver 1.090 krónur með súpu og rifnu hrásalati. Val á milli steinbíts og rauðsprettu dagsins er harla lítilfjörlegt í landi, þar sem fiskbúðir eru fullar af fjölbreyttum tegundum.

Pönnusteiktur steinbítur með pastaræmum og tómatsmjöri var hæfilega eldaður. Ostbökuð rauðsprettuflök með rækjum og grænmeti voru líka hæfileg. Kjúklingur með skrúfupasta var hins vegar í þurrara lagi og hvítlaukssósa í mildara lagi, ekki merkilegur réttur.

Villigæsakjöt var rautt, meyrt og vel úti látið, með eplabitum í þeyttum rjóma, einhver bezta gæsasteik, sem ég hef fengið hér á landi. Nautalund var líka meyr og fín, mikið pipruð, með mildri rauðvínssósu og ýmist fersku eða léttsteiktu grænmæti. Langvía og önd hafa ekki heldur brugðist mér. Enginn kjötrétta Laugaáss í vetur hefur verið lakari en þeir, sem hafa fengizt á dýrustu matstöðum landsins.

Eftirréttir dagsins eru yfirleitt léttir búðingar með ferskum berjum og fagurlitum ávaxtasósum. Venjulegt kaffi er gott.

Háværar glerplötur á borðum eru sorgleg afturför frá harðplasti með innfelldum múrsteinum, sem voru í gamla daga. Að öðru leyti hefur Laugaás verið sjálfum sér líkur í tvo áratugi.

Jónas Kristjánsson

DV