Frá haga til maga

Greinar

Skaðlegar eru hugmyndir landbúnaðarráðherra um að færa matvælaeftirlit úr umhverfisráðuneytinu í landbúnaðarráðuneytið, sem er gamalgróin hagsmunagæzlustofnun landbúnaðarins og mun sem slík draga fjöður yfir vandamálin og ekki gæta hagsmuna neytenda.

Kamfýla og salmonella hafa komið upp í kjördæmi ráðherrans, af því að embættismenn í landbúnaðargeiranum stóðu sig ekki sem skyldi. Það voru hins vegar vökulir starfsmenn heilbrigðiseftirlits Suðurlands, sem blésu í aðvörunarlúðra, þegar átti að þagga málin niður.

Sveitarstjóri Rangárvallahrepps gagnrýndi þessa embættismenn heilbrigðiseftirlitsins hér í blaðinu í gær og sagðist vilja, að þeir störfuðu í kyrrþey og létu almenning ekki vita af málum, heldur reyndu að koma þeim á framfæri við rétta málsaðila fyrir luktum dyrum.

Skoðanir landbúnaðarráðherrans og sveitarstjórans eru nákvæmar eftirlíkingar af þeim skoðunum, sem hafa sett allt á annan endann í heilbrigðiseftirliti víða um Evrópu. Embættismenn og stjórnmálamenn hafa þar reynt að halda leyndum vandræðum á borð við kúariðu.

Þegar málin loksins komust upp, varð af stórtjón, af því að menn höfðu glatað trausti á yfirlýsingar embættismanna og stjórnmálamanna. Fólk trúði engu, sem þeir sögðu. Þess vegna trúa menn ekki núna, þegar sömu embættismenn segja erfðabreyttan mat vera í lagi.

Reynslan sýnir, að heilbrigðiseftirlit þarf að starfa fyrir opnum tjöldum til þess að fólk beri traust til þess. Ef farið er að draga leyndarhjúp yfir vandamálin, meðan þau eru í uppsiglingu, munu svik komast upp um síðir og fólk hætta að trúa yfirlýsingum um, að allt sé í lagi.

Landbúnaðarráðuneytið er eindregið sérhagsmunaráðuneyti með langa sögu óvildar við neytendur að baki sér og getur aldrei orðið samnefnari fyrir traust milli kerfis og neytenda. Matvælaeftirlit á vegum hlutdrægs landbúnaðarráðuneytis verður haft í flimtingum.

Raunar er ekki heldur til fyrirmyndar að hafa matvælaeftirlitið í sveitarstjórnageira umhverfisráðuneytisins. Sveitarstjórnir hafa staðbundinna hagsmuna að gæta eins og kom í ljós á Hellu í fyrrasumar og hafa síðan verið ítrekaðir í málflutningi sveitarstjórans á Hellu.

Hella er svo lítið pláss, að það skiptir miklu máli, að góð sala sé í afurðum fyrirtækis, sem hefur tugi manna í vinnu. Ef salan bregzt vegna ótta neytenda við vöruna missa menn atvinnu. Þess vegna vildu ráðamenn á Hellu koma í veg fyrir að kamfýlan kæmist í hámæli.

Matvælaeftirlit er fyrst og fremst heilbrigðismál og á heima í heilbrigðisráðuneytinu. Ef komið verður upp samræmdu kerfi matvælaeftirlits “frá haga til maga” eins og landbúnaðarráðherra hefur orðað það, á að koma því eftirliti fyrir í heilbrigðisgeiranum sjálfum.

Við höfum kennslubókardæmin allt í kringum okkur, bæði hér heima og erlendis. Við vitum af dæmum, að sérhagsmunatengdir aðilar eiga erfitt með að gæta almannahagsmuna. Við vitum af dæmum, að eftirlit þarf að starfa fyrir opnum tjöldum, en ekki fyrir luktum dyrum.

Á vegum forsætisráðuneytisins hefur nefnd um nýskipan matvælaeftirlits starfað fyrir luktum dyrum og kynnt ráðherrum sjónarmið sín. Ástæða er til að hafa áhyggjur af þessu ferli, alveg eins og ástæða er til að hafa áhyggjur af yfirlýsingum landbúnaðarráðherra.

Matvælaeftirlit mun ekki njóta trausts, fyrr en því verður komið fyrir hjá hagsmunalausum aðilum í heilbrigðisgeiranum, sem starfa fyrir opnum tjöldum.

Jónas Kristjánsson

DV