Schengen og flóttamenn

Greinar

Eftir slæma framkomu Íslendinga við flóttamenn af gyðingaættum fyrir síðustu heimsstyrjöldina, hafa viðhorf okkar til nýbúa að mestu verið sómasamleg, allt frá því að þýzkar flóttakonur gerðust bústólpar víða um sveitir landsins eftir lok heimsstyrjaldarinnar.

Flóttafólk frá Víetnam og svartir íþróttamenn hafa samt fundið fyrir, að stutt er í kynþáttahatur, einkum hjá illa gefnu og illa menntuðu fólki, svo sem títt er víða um lönd. Slíkir fordómar megna hér ekki að fá skipulagða útrás í stjórnmálaflokkum að evrópskum hætti.

Það hjálpar okkur, að Rauði krossinn og stjórnvöld hafa lagt áherzlu á að reyna að gera nýbúum kleift að verða virkir aðilar að þjóðfélaginu, svo að þeir einangrist ekki í skuggahverfum atvinnuleysis. Yfirleitt hafa nýbúar ekki síður en innfæddir orðið nýtir þjóðfélagsþegnar.

Það hjálpar okkur líka, að nánast alla þessa áratugi hefur full atvinna ríkt í landinu. Þar af leiðandi hefur ekki komið upp öfund á borð við þá, sem við sjáum víða um heim, þegar illa gefnir og illa menntaðir heimamenn missa atvinnu í hendur framsækinna nýbúa.

Raunar er litið á nýbúa sem þátt í byggðastefnu í sumum byggðum, er hafa búið við fólksflótta. Þær hafa keppzt um að bjóða stjórnvöldum aðstæður til að auðvelda aðlögun þeirra. Má segja, að frekar ríki hér á landi umframeftirspurn en offramboð á þessu sviði.

Matargerðarlist má nefna sem dæmi um framlag víetnamskra flóttamanna til auðgunar íslenzkri menningu. Innfæddir Íslendingar hafa lært að kynnast austrænni matreiðslu, sem áður var okkur framandi, en er nú orðinn hluti af aukinni fjölbreytni í íslenzkri hefð.

Skemmtilegasta dæmið um sátt heimamanna og nýbúa er hin árlega þjóðahátíð, sem haldin er á Vestfjörðum í tilefni af alþjóðadegi Sameinuðu þjóðanna. Þar koma saman Vestfirðingar af 44 þjóðum, sem leggja hver sitt af mörkum til margþættrar og auðugrar dagskrár.

Nýbúar eru orðnir 7% allra Vestfirðinga, án þess að komið hafi til neinna sjáanlegra vandræða. Það bendir til, að við getum áfram haldið að auðga þjóðina víðar um land á þennan hátt, án þess að lenda í sömu ógöngum og ýmsar vestrænar þjóðir, sem verr voru undirbúnar.

Verkefni aðlögunar nýbúa fær nýja vídd, þegar Ísland verður aðili að Schengen-samkomulagi flestra ríkja Evrópska efnahagssvæðisins um sameiginleg ytri landamæri. Aukið svigrúm fólksflutninga innan Evrópu er ávísun á aukna strauma ólöglegra flóttamanna um álfuna.

Óþægindin af aukinni og óskipulagðri aðsókn erlends fólks geta hæglega vakið upp fordóma, sem áreiðanlega blunda með Íslendingum eins og öðrum. Þess vegna er brýnt, að undirbúningur Schengen-aðildar taki á því, hvernig hægt sé að aðlaga óvænta flóttamenn.

Sérstaklega er brýnt að koma í veg fyrir innreið skipulagðra glæpaflokka, sem reynsla annarra Evrópuríkja sýnir, að eiga auðveldast allra með að framvísa peningum, farseðlum, skilríkjum og öðrum gögnum. Með öllum tiltækum ráðum þarf að kæfa mafíur í fæðingu.

Reynslan af erlendum mafíum á drjúgan þátt í uppgangi öfgaflokka gegn nýbúum í mörgum löndum Evrópu, til dæmis í Austurríki, þar sem öfgaflokkur útlendingahaturs er kominn í ríkisstjórn. Við megum alls ekki framleiða hliðstæðan stjórnmálavanda hér á landi.

Um leið og við göngum í Schengen, verðum við að efla víddir aðlögunar erlendra flóttamanna að leikreglum og siðvenjum, svo að við getum haldið áfram að taka við.

Jónas Kristjánsson

DV