Hausaveiðar

Greinar

Tölvufyrirtækið Oz hyggst fjölga starfsmönnum sínum hér á landi um 150 og rúmlega tvöfalda mannafla sinn og mannauð. Það ætlar að greiða starfsmönnum sínum verðlaun fyrir að gerast hausaveiðarar á markaði hæfileikafólks í margs konar tölvutækni.

Í skólum, sem útskrifa fólk á þessu sviði, hefur einnig orðið vart við hausaveiðara, sem bjóða nemendum afbragðs kjör fyrir að koma til starfa hjá fyrirtækjum þeirra eftir lokapróf. Þessi aðferð hefur lengi tíðkazt við beztu háskólana vestan hafs.

Það er nýtt hér á landi, að nám og þekking séu svo verðmæt í sjálfu sér, að fyrirtæki séu með útsendara á sínum vegum til að ná í þá, sem skara framúr. Breytingin sýnir, að hér á landi er til fjárhagslega verðmætur mannauður, sem nýtist til arðbærra verka.

Ráðamenn menntamála hafa stundum gortað af, að mikil áherzla hafi verið lögð á tölvutækni í menntakerfi þjóðarinnar. Reynslan sýnir þó, að betur má, ef duga skal. Feiknarlegur mannauður er enn óbeizlaður vegna skorts á margs konar menntun við hæfi.

Við erum síður en svo eina þjóðin, sem á erfitt með að fylgjast með tímanum í menntunargeiranum. Þýzka ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að stuðla að innflutningi 20.000 manns á sviðum margs konar tölvutækni til að bæta upp skort á innfæddum.

Fyrirgreiðsla þýzkra stjórnvalda felst væntanlega í fjárhagslegri fyrirgreiðslu við flutninga til landsins og í flýtimeðferð við veitingu ríkisborgararéttar. Ríkisstjórnir fleiri vestrænna ríkja íhuga að fylgja í kjölfarið til að efla samkeppnishæfni ríkja sinna.

Eitt af því kostulega við hin nýju hátekjustörf hjá hátæknifyrirtækjum nútímans er, að nám og starf kosta tiltölulega lítið í búnaði. Á nýjum sviðum nýrrar aldar er fremur fjárfest í hálaunum og mannauði heldur en í láglaunum og dýrum búnaði gamla tímans.

Á sama tíma og hátæknifyrirtæki, sem bjóða gull og græna skóga, leita í örvæntingu að mannauði við hæfi, eru ráðamenn þjóðarinnar eins og útspýtt hundskinn við að reyna að útvega niðurgreidd láglaunastörf við að kraka í bræðslupottum álvers á Reyðarfirði.

Á sama tíma og gæfusamur hluti þjóðarinnar stendur þegar föstum fótum í atvinnulífi 21. aldar og sér fyrir sér bjarta hátekjuframtíð, er annar hluti þjóðarinnar undir forustu ríkisvaldsins enn að ösla mýrar 19. aldar undir merkjum stóriðju og smábyggðastefnu.

Á sama tíma og ríkið borgar milljónir króna á hverju ári á hvert starf í landbúnaði og reynir að ná saman fjárfestingu, sem kostar tugi milljóna á hvert starf í stóriðju, getur það ekki séð af nokkrum tugþúsundum króna til að framleiða hvert starf í hátækni.

Ef öll sú pólitíska orka, sem nú fer í að hamla gegn 21. öldinni, sem nú fer í smábyggðastuðning við atvinnuvegi 19. aldar, færi í að efla menntun og þjálfun í atvinnugreinum 21. aldar, ætti engin þjóð í heiminum betri fjárhagslega framtíð en Íslendingar.

Allt ber að sama brunni. Unga fólkið vill fremur háar tekjur en lágar, hátækni fremur en landbúnað og stóriðju. Fyrirtæki í tölvutækni þyrstir í mannauð og halda úti hausaveiðurum til að geta stækkað hraðar og hraðar. 21. öldin hvíslar ekki, heldur kallar hátt.

Tímabært er, að ráðamenn okkar snúist fremur á sveif með þessari þróun heldur en að sóa fé okkar og fyrirhöfn í fen, sem þóttu fín í þeirra ungdæmi.

Jónas Kristjánsson

DV