Café Bleu felur í sér hvert rýmið á fætur öðru í U utan um nokkra skyndibitastaði á veitingasvæði Kringlunnar. Inngangurinn er um annan endann á u-inu, þar sem er kaffiborða- og tágastólasvæði með útsýni yfir neðri hæðina. Í hinum endanum á u-inu er stórt og dimmt glerbúr, eins konar reyksalur með mörgum litlum borðum. Milli endanna er reyklaust svæði, vinkillaga rangali með föstum básum. Hver stíllinn tekur við af öðrum, ef stíl skyldi kalla.
Þjónusta er vakandi og jákvæð og bætir upp losarabrag hönnunarinnar. Vel er séð fyrir nógu vatni og meiru af góðu kryddbrauði, án þess að beðið sé um það. Með brauðinu fylgir ágætis kryddolía í stað smjörs, til heilsusamlegrar fyrirmyndar. Lúxus er lítill, engir dúkar á borðum og munnþurrkur úr pappír. Staðurinn er oft fullsetinn í hádeginu.
Café Bleu er ódýrastur af hefðbundnum matstöðum fullrar þjónustu á þessu svæði. Þríréttað með kaffi á kvöldin kostar þar 3.200 krónur, 3.600 í Hard Rock og 4.100 í Eldhúsinu. Í hádeginu er tilboð dagsins 790 krónur án súpu í Café Bleu, en 950 krónur með súpu í Hard Rock og Eldhúsinu.
Matseðillinn er tilraun til að geðjast sem flestum, blendingur þekktra rétta úr ýmsum áttum, sitt lítið frá Indlandi og Kína, Thailandi og Japan, Rússlandi og Norður-Afríku, en mest frá Ítalíu og Frakklandi, svo og franskar og bökuð frá Ameríku og kremsúpa frá Íslandi. Espresso-kaffi er ekta og danskt kaffi gott, en vondur er langi saltbrauðsstauturinn, er fylgir nánast öllum réttum sem einkennistákn staðarins.
Tærar súpur dagsins voru ágætar, mild gulrótarsúpa og hæfilega sterk tómat- og blaðlaukssúpa. Kremsúpa dagsins var blessunarlega þunn sem slík, mild og notaleg tómatfiskisúpa án sterka humarskeljabragðsins, sem víða er keyrt upp í veitingahúsum hér á landi.
Sushi er svipað og víðast annars staðar í bænum, líklega úr fabrikku úti á landi, í algerri þversögn við hugmyndafræði þessarar matreiðslu í Japan. Pönnusteikt og bragðdauf rispahörpuskel var losaraleg og virtist vera úr surimi-fabrikku, borin fram með fallegu salati og litskrúðugum sósum.
Ágæt voru grilluð eggaldin með kúskus, hrásalati, ostbökuðum tómati og sesamkryddaðri olíu. Eldislax var góður matur, hæfilega grillaður, brenndur utan og mjúkur að innan. Í annað skiptið lá hann undir ofsöltuðum, djúpsteiktum kartöfluþráðum og ofan á sveppasteiktum hrísgrjónum og þurrkuðum tómötum. Í hitt skiptið var engifer stungið í rifur í roðinu og laxinn borinn fram með mildu súrkáli og maukuðum seljustönglum, fyrirmyndar réttur.
Lakari var lúðan, sem var þurr og bragðdauf, greinilega úr frysti, borin fram með parma-osti, sólþurrkuðum tómötum, jóðlandi í olífuolíu og maukuðu spínati. Sinnepsgljáðar grísalundir voru líka of þurrar og bragðdaufar, bornar fram með eins konar káljafningi í sýrðum rjóma. Bezti kjötrétturinn var óvenjulega bragðsterkur, indverskur tandoori-kryddaður kjúklingur, afar meyr og safaríkur, með fullsaltri skorpu, borinn fram með smásöxuðu og pönnusteiktu grænmeti.
Matreiðslan á Café Bleu var aldrei vond og stundum nokkuð góð. Þar er hver stíllinn á fætur öðrum eins og í innréttingunni.
Jónas Kristjánsson
DV