Sameining er böl

Greinar

Hrollvekjandi hefur verið að sjá fögnuð ráðherra og ráðunauta út af fyrirhugaðri sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans. Þeir halda fram í fúlustu alvöru, að sameiningin muni hafa í för með sér lægri vexti og lægri þjónustugjöld hjá viðskiptamönnum bankanna.

Þegar fjöldi fyrirtækja í hverri atvinnugrein er kominn niður fyrir ákveðið lágmark, er frekari sameining ekki viðskiptamönnum til hagsbóta. Þetta höfum við séð í olíuverzlun og tryggingum, matvöruverzlun og farþegaflugi. Samkeppni breytist í fákeppni, sem breytist í fáokun.

Fjármálastofnanir eru orðnar svo fáar hér á landi, að sameining þeirra verður viðskiptamönnum til bölvunar. Vandinn er tiltölulega lítill í sameiningu Íslandsbanka og Fjárfestingarbankans, af því að síðari bankinn starfar nánast ekkert á markaði einstaklinga og einyrkja.

Þeim mun meira er böl almennings af sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sem báðir eru fyrirferðarmiklir á almennum markaði. Bönkum á slíkum markaði fækkar úr þremur í tvo við slíka sameiningu, ef staðbundnir sparisjóðir eru ekki taldir með.

Sérstakt áhyggjuefni er að sjá fögnuð stjórnmálamanna, sem ættu stöðu sinnar vegna að reyna að gæta hagsmuna almennings. Nýi bankaráðherrann fer þar fremstur og gefur þar með litlar vonir um, að hún gæti hagsmuna almennings við frekari framvindu bankasameiningar.

Auðvitað hefur sameining hliðstæðra fyrirtækja hagræðingu í för með sér. Unnt er að fækka afgreiðslustöðum og segja upp starfsfólki. Þessi hagræðing er til að byrja með notuð til að auka arðsemi hlutafjár í þessum bönkum og kemur hluthöfum þeirra einum að gagni.

Þegar fram í sækir, eflist fáokunin hins vegar og stofnanir fáokunar fara að semja um markaðinn sín á milli. Við brottfall samkeppninnar minnkar hagræðingin aftur, en arðsemisþörf hluthafanna ekki, og viðskiptamennirnir verða enn einu sinni sem oftar látnir borga brúsann.

Öll samkeppni stefnir að einokun. Fyrirtæki, sem vel gengur, bola öðrum úr vegi eða kaupa þau. Smám saman fækkar fyrirtækjum og fyrri samkeppnislögmál hverfa í skuggann. Sérstaklega er hætt við þessu hér á landi, þar sem allur markaður er lítill og fyrirtæki yfirleitt fá.

Við höfum bezt séð þetta í þróun matvöruverzlunar síðustu áratugi. Með tilkomu Hagkaups og síðar Bónuss fór vöruverð í landinu lækkandi, verðbólga minnkandi og hagur almennings batnandi. Verzlanir þessar gerðu á sínum tíma meira fyrir fólk en samanlögð stéttarfélögin.

Þegar sameining í matvöru náði ákveðnu stigi, snerist þetta við. Það byrjaði í hittifyrra og ágerðist í fyrra, að vöruverð fór hækkandi á nýjan leik. Þær fáu keðjur, sem eftir voru, komu sér fyrir í ákveðnum hillum á markaðinum og leyfðu verðinu smám saman að stíga.

Áhugamenn um arðsemi fyrirtækja og hag hluthafa geta fagnað þessari þróun, sem fjarlægir áhættuna og gerir lífið þægilegt. Þeir, sem hins vegar hafa atvinnu af því að gæta hags almennings, hafa litla ástæðu til að fagna og forsætisráðherra hefur ekki dulið gremju sína.

Í ljósi erlendrar og innlendrar reynslu er furðulegt, að hér skuli dögum saman verið sunginn fagnaðaróður fyrirhugaðrar sameiningar Landsbanka og Búnaðarbanka. Eru ráðherrar svona heimskir eða eru þeir svona forstokkaðir? Eða eru það ráðgjafar, sem stjórna ruglinu?

Bankasameining breytir fákeppni í fáokun og saumar fjárhagslega að þeim viðskiptamönnum, sem ekki hafa burði til að sækja bankaþjónustu til útlanda.

Jónas Kristjánsson

DV