Samsæri gegn ungu fólki

Greinar

Byggðagildrur taka á sig ýmsar myndir. Ríki og sveitarfélög beita margvíslegum ráðum til að frysta liðna tíma í atvinnuháttum og búsetu. Á hverju ári er milljörðum varið í byggðagildrur, án þess að árangur hafi verið eftirtektarverður. Unga fólkið lætur ekki ánetjast.

Ríkið, stofnanir þess og sjóðir borga láglaunafyrirtækjum fyrir að starfa í byggðagildrum. Sveitarfélög byggðagildranna brenna sameiginlegum peningum íbúanna í hlutafé hallærisfyrirtækja, meðan önnur sveitarfélög geta notað sína peninga óskerta í þjónustu fyrir íbúana.

Með múgæsingu smábyggða-þjóðernis er almenningur í þessum sveitarfélögum fenginn til að leggja hlutafé í staðbundið sukk og fallast á síðbúnar og lágar launagreiðslur. Íbúarnir fara því sjálfir fjárhagslega halloka í samanburði við þá, sem ekki búa í byggðagildrum.

Staðbundnir lífeyrissjóðir bregðast trúnaði við félagsfólk og sóa lífeyri þess í staðbundna erfiðleika atvinnulífsins. Þannig er ekki bara ráðizt að nútíð íbúa byggðagildranna, heldur er framtíð þeirra fórnað líka. Þeir geta ekki notið áhyggjulauss ævikvölds til jafns við aðra.

Einna alvarlegast er samsærið gegn unga fólkinu. Það er hvatt til að hafa skólagöngu stutta og koma heldur til starfa við færibönd láglaunafyrirtækisins. Það er hvatt til að byggja sér verðlaust íbúðarhús, borga vinnuveitandanum hlutafé og láta lífeyrissjóðinn sóa sparifénu.

Meðan stór hluti þjóðarinnar er kominn á fulla ferð inn í 21. öldina, reynir byggðagildran að frysta 19. öldina á eins konar byggðasöfnum hér og þar um landið. Stórfenglegasta afturhaldsemi af þessu tagi er byggðagildra Fjarðarbyggðar og félagsins Afl fyrir Austurland.

Ráðamenn sveitarfélagsins og hugsjónafélagsins reyna að tromma upp múgæsingu heimamanna til stuðnings því, að álver verði reist á Reyðarfirði til að koma í veg fyrir, að unga fólkið afli sér menntunar til starfa 21. aldar hvar sem er í landinu og hvar sem er í heiminum.

Þeir sjá fyrir sér trygga vaktavinnu unga fólksins við að kraka í bræðslupottum álvers á Reyðarfirði á heldur hærra kaupi en það hefði haft við færibönd fiskvinnslunnar, en neiti sér um tækifærin, sem nútíminn veitir æskunni umfram þá, sem voru ungir í gamla daga.

Það vita allir, sem vita vilja, að unga fólkið dreymir hvorki um færibönd né bræðslupotta. Þess vegna ber Fjarðabyggð annaðhvort að gera staðinn gildandi í atvinnugreinum 21. aldar eða gefa unga fólkinu frelsi til að leita þeirrar aldar á framfarasinnaðri slóðum.

Í álvers-offorsi sínu lætur Fjarðabyggð hjá líða að búa í haginn fyrir atvinnugreinar 21. aldar, til dæmis með því að leggja mikla áherzlu á menntun unga fólksins í hugbúnaðargreinum og með því að bjóða hugbúnaðarfyrirtækjum lága húsaleigu og góðar tengingar við netið.

Svo langt gengur ruglið, að kennari fyrir austan var sakaður um að mennta unga fólkið burt af svæðinu. Sú ásökun sýndi byggðagildruna í sinni svæsnustu mynd. Menn líta á unga fólkið eins og ánauðuga lénsbændur og ráðast á þá, sem vilja veita því frelsi til að velja sjálft.

Byggðagildra er glæpur og byggðagildra Fjarðabyggðar er mikill glæpur. Hún er glæpur gegn ungum og ófæddum Austfirðingum, tilraun til að draga úr vilja þeirra til að nýta sér tækifæri nútímans. Hún er glæpur vælukjóa, sem hafa gefizt upp á baráttunni fyrir betra lífi.

Samsærið gegn ungum Austfirðingum hefur sem betur fer sprungið. Byggðagildrumönnum hefur ekki tekizt að dæma þá til lífstíðar-ánauðar við bræðslupottana.

Jónas Kristjánsson

DV