Tölur án innihalds

Greinar

Ef utanríkisráðuneytið semdi skýrslu um kosti og galla aðildar fólks að Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness, mundi það finna út 1.500 króna árlegan kostnað við aðildina og engar tekjur á móti, ekki einu sinni styrki handa íslenzkum landbúnaði og afskekktum byggðum.

Þótt ráðuneytið hefði allar krónutölur aðildar að stjörnuskoðunarfélaginu á hreinu, stæði ekkert í skýrslunni, sem máli skipti. Þar væri ekkert um aðgang félagsmanna að stjörnukíki, félagsheimili, fræðibókasafni og samvistum við aðra áhugamenn um sama málefni.

Þannig er skýrsla ráðuneytisins um aðild að Evrópusambandinu. Þar er allt á hreinu um átta milljarða kostnað af aðildinni á hverju ári og fimm milljarða endurgreiðslur, einkum til landbúnaðar og afskekktra byggða. En tölurnar segja lítið um innihald sambandsins.

Augljóst er, að peningar streyma í bandalaginu frá ríkum þjóðum til fátækra þjóða. Samt hafa ríkar þjóðir gengið inn, af því að þær hafa séð, að allar þjóðir hafa grætt á aðildinni, ekki sízt þær, sem ríkastar voru. Aðild að Evrópusambandinu reiknast ekki sem núllsumma.

Aðildin felur í sér aðild að stórum markaði, aðild að evrópskri mynt, aðild að evrópskum möguleikum, aðild að evrópskum stöðugleika, aðild að ákvörðunum, sem nú eru teknar að okkur forspurðum og síðan þýddar á íslenzku í ráðuneytum landsins til notkunar á Íslandi.

Einnig er augljóst, að fámennar þjóðir ráða minna í bandalaginu en fjölmennar. Samt hafa fámennar þjóðir gengið inn, af því að þær hafa séð, að allar þjóðir hafa grætt á aðildinni, ekki sízt þær, sem fámennastar eru. Evrópusambandið hefur reynzt smáþjóðum gullnáma.

Ennfremur er augljóst, að samkeppni vex við inngöngu í bandalagið. Matvælaiðnaður hefur verið nefndur sem dæmi. Höfðað er til hræðslu fólks við samkeppni, sem sé af hinu illa, þótt reynsla vestrænna þjóða segi skýrum stöfum að allir málsaðilar græði á aukinni samkeppni.

Sjávarútvegsstefna Evrópusambandsins felur í sér, að réttur til staðbundinna veiða byggist á veiðireynslu á þeim slóðum. Í fiskveiðilögsögu Íslands hafa nánast eingöngu Íslendingar veiðireynslu og hafa því einir rétt til veiðanna samkvæmt sjávarútvegsstefnu bandalagsins.

Ef Íslendingar hefðu ekki haft pólitíkusa á borð við utanríkisráðherra að stjórnmálamönnum um langan aldur, værum við fyrir löngu gengnir í Evrópusambandið, ættum sjávarútvegsráðherra þess og hefðum allra þjóða mest áhrif á frekari framvindu fiskveiðistefnunnar.

Það þýðir hins vegar ekki að segja fólki, að skerðing fullveldis yfir fiskimiðum sé af hinu góða. Það þýðir ekki að segja fólki, að Evrópusambandið sé ekki núllsumma. Það þýðir ekki að segja fólki, að beztu liðina vanti í dæmi átta milljarða útgjalda og fimm milljarða tekna.

Af ýmsum slíkum ástæðum mun skýrsla utanríkisráðuneytisins styrkja Íslendinga í þeirri trú, að ekki sé ráðlegt að ganga í Evrópusambandið og bezt sé að fylgjast með framvindunni, helzt um aldur og ævi. Menn munu vitna í reikningsdæmið og sjávarútvegsstefnuna.

Vinnubrögð af þessu tagi hafa þegar leitt til þess, að við höfum setið af okkur möguleika á að eignast ráðherra í Evrópusambandinu. Við höfum setið af okkur möguleika á að koma gengisfestu í ferðaþjónustuna og auka þar með arðsemi hennar. Við munum sitja fleira af okkur.

Hnípin og kvíðin þjóð, sem óttast erlenda strauma og sér hættur í hverju horni, velur sér landsfeður við hæfi og fær um Evrópusambandið skýrslur, sem hæfa henni.

Jónas Kristjánsson

DV