Sjávarútvegur göslara

Greinar

Fiskveiðar okkar eru því miður ekki sjálfbærar, þótt landsfeður og hagsmunaaðilar fullyrði stundum, að stjórnkerfi fiskveiða geri auðlindinni kleift að endurnýja sig eðlilega. Nánast allir nytjastofnar við landið eru á niðurleið, sumir ört og aðrir hægt og sígandi.

Þorskurinn er líka á niðurleið, þegar til langs tíma er litið, þótt hann sé oftast nefndur sem dæmi um velgengni kvótakerfisins. Þorskveiði jókst að vísu á síðari hluta síðasta áratugarins, en það bætti ekki upp samdráttinn, sem hafði orðið áratugina á undan.

Ef skammtíma bylgjusveiflur þorskveiða eru jafnaðar út, sést bein lína, sem stefnir niður á við. Fram á sjötta áratuginn var heildarafli þorsks á Íslandsmiðum um 500.000 tonn á ári. Á tíunda áratugnum var heildaraflinn kominn niður í um það bil 200.000 tonn á ári.

Karfaaflinn hefur hrunið um helming frá 1994, úr rúmlega 140 þúsund tonnum í tæplega 70 þúsund tonn. Grálúðan hefur hrunið úr tæplega 60 þúsund tonnum árið 1989 í rúmlega 10 þúsund tonn. Ufsaaflinn hefur hrunið úr 100 þúsund tonnum í 30 þúsund tonn.

Síðan rækjan fór að gefa sig 1997 og 1998 er ýsan eini mikilvægi nytjastofninn, sem hefur haldið stöðu sinni nokkurn veginn óbreyttri. Það er ekki merkilegur verndunarárangur af fiskveiðistefnu, sem sögð er vernda auðlindir hafsins betur en aðrar slíkar.

Tjón okkar af ofveiðinni er meira en tölurnar hér að ofan lýsa. Þær segja aðeins frá því beina fjárhagstjóni, sem þegar er orðið. Þær mæla hins vegar ekki óbeina tjónið, sem við eigum eftir að sæta í kjölfar þess að komast ekki í fjölþjóðlega gæðastjórnarklúbba.

Slíkir klúbbar verða mikilvægir í framtíðinni. Stærstu matvælafyrirtæki heims hafa undanfarið lagt mikla áherzlu á að afla sér ímyndar vörugæða, hreinlætis og sjálfbærrar umgengni við auðlindir á borð við fiskistofna. Unilever fer þar fremst í flokki.

Norsk Hydro hefur reynt að afla sér svipaðrar ímyndar á sviði stóriðju. Þegar ráðamenn þess áttuðu sig á, að Reyðarál mundi eyða þessari nýju ímynd, fóru þeir að tala í kross og hlupust síðan á brott frá lagsbræðrum sínum í hópi íslenzkra göslara.

Landsfeður Íslands og hagsmunaðilar leggja mikla áherzlu á að útmála vonzku þessara útlenzku sjónarmiða og stappa stálinu hver í annan að láta ekki deigan síga. Hetjuskapur þeirra minnir á Þorgeir Hávarsson, þar sem hann hékk í hvönninni.

Þessi sjálfseyðingarhvöt íslenzkra skrípakarla var ítrekuð á Fiskiþingi í vetur, þar sem hagsmunaaðilar sjávarútvegs í sögufrægasta vælukór landsins grétu sáran yfir vondum umhverfisvinum í útlandinu, sem ætluðu að banna Íslendingum að veiða fisk.

Þrjú ár eru síðan Orri Vigfússon lagði til, að Ísland yrði ekki eftirbátur annarra í sjávarútvegi nútímans, heldur tæki forustu í nýjum samtökum um óháðar vottunarstofur og gæðastýringu, sem fæli í sér áherzlu á vöruvöndun, hreinlæti og sjálfbærar fiskveiðar.

Unilever og World Wildlife Fund tóku hins vegar forustuna í sameiningu og eru að framkalla nýjan veruleika í sjávarútvegi, sem endar með því, að auglýst verður á umbúðum með stimpli frá vottunarstofum, að varan sé ekki frá íslenzkum göslurum.

Í sjávarútvegi og stjórn sjávarútvegsmála höfum við látið stjórnast af skammsýnum bjánum, sem eiga eftir að valda okkur enn meira tjóni en þegar er orðið.

Jónas Kristjánsson

DV