Ljósmyndir af persónum hafa á undanförnum árum orðið sífellt umfangsmeiri þáttur íslenzkra ættfræðirita, sem blómstra betur en nokkru sinni fyrr. Vinsældir þessa efnis sanna enn einu sinni, að persónufræði er sem fyrr mikilvægur þáttur í lífi þjóðarinnar.
Tölvunefnd er sem oftar úti á þekju í íslenzku samfélagi og hallar sér í staðinn að vafasömum fræðisetningum utan úr heimi. Nú vill hún amast við, að ljósmyndir af fólki séu birtar í ættfræðilegum gagnabönkum, sem verða senn settir upp á veraldarvefnum.
Persónufræði á netinu er eðlilegt framhald af persónufræði á pappír. Hún verður mikilvægur þáttur í lífi þjóðarinnar alveg eins og ættfræðiritin hafa verið og eru enn. Tölvunefnd verður frekar lögð niður en að hún fái að komast upp með að skemma þetta.
Hugmyndin um, að ljósmyndir af fólki séu einkamál þess, er hluti af tilraunum til að víkka hugtak friðhelgi einkalífsins, studdar ýmsum hagsmunum, sem vilja forðast hnýsni af ýmsu tagi. Markmiðið er oftast að geta flokkað ýmis feimnismál sem einkamál.
Þetta gengur svo langt, að menn gætu freistast til að telja ýmis yfirvöld ímynda sér, að peningar hafi sitt eigið einkalíf og að fyrirtæki hafi sitt eigið einkalíf. Þótt peningar og fyrirtæki geti átt sín leyndarmál, er fáránlegt að flokka þau undir friðhelgi einkalífs.
Meðal feimnismála eru lágir skattar fólks, sem býr við glæsilegan kost, léleg háskólapróf hátt settra embættismanna, barneignir lækna utan hjónabands og nú síðast ljósmyndir af Íslendingum holt og bolt. Allt eru þetta mál, sem varða samfélagið á ýmsan hátt.
Fjármálaráðuneytið er stofnun, sem trúir, að peningar og fyrirtæki hafi sál, sem beri að verja fyrir hnýsni. Það reyndi fyrir tveimur árum að brjóta lög til að koma í veg fyrir, að fólk geti flett upp í skattskrám og tókst að lokum að veikja lögin með reglugerð.
Hæstiréttur varð að athlægi, þegar hann reyndi að hindra, að barneignir lækna utan hjónbands kæmu fram í læknatali Vilmundar Jónssonar landlæknis. Tölvunefnd verður núna að athlægi, þegar hún reynir að koma í veg fyrir myndbirtingar á netinu.
Tölvunefnd hefur á ýmsan annan hátt skaðað samfélagið. Hún reyndi að spilla möguleikum fólks á að gægjast í bifreiðaskrána til að sjá tjónasögu bíla og komast þannig að raunverulegu verðgildi þeirra. Hún vildi vernda gamla spillingu í bílaviðskiptum.
Tölvunefnd hefur áður komið við sögu íslenzkrar persónufræði. Hún hefur áður reynt að gera fólki kleift að stýra því, sem stendur um það í ættfræðiritum. Hún túlkar feimnismál sem einkamál. Hvenær hyggst hún reyna að hefja ritskoðun á íslenzkri sagnfræði?
Allt er árangurslaust þetta brölt í tölvunefnd og gerir ekki annað en að veikja málstað hennar, þegar hún á í erfiðleikum með að koma á framfæri raunverulegum framfaramálum. Hvorki fólk né ríkisvald tekur mark á nefnd, sem staðin er að endurtekinni flónsku.
Vara ber við hagsmunum af útvíkkun hugtaks friðhelginnar. Gera þarf skýran mun á einkamálum og feimnismálum, persónum og lögpersónum, sálum og peningum. Ef það er ekki gert, lenda menn út á þekju, svo sem sannazt hefur í afskiptum af ættfræði.
Tölvunefnd mun ekki takast að hindra okkur í að hafa ánægju af að fletta myndum af samborgurunum í væntanlegum netbönkum íslenzkrar persónufræði.
Jónas Kristjánsson
DV