Lík börn leika bezt

Greinar

Gaman var að sjá fyrrverandi og núverandi Evrópusambandsráðherra, þau Emmu Bonino frá Ítalíu og Chris Patten frá Bretlandi, valta yfir Henry Kissinger, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, á málþingi um utanríkismál með nokkur hundruð ritstjórum í Boston.

Kissinger hefur löngum verið einkennistákn svonefndrar raunsæisstefnu, sem felur í sér að gæta vestrænna utanríkishagsmuna án sérstaks tillits til vestrænnar hugmyndafræði á borð við mannréttindi. Svonefndir “tíkarsynir” eru studdir, ef þeir eru “okkar tíkarsynir”.

Stefna Kissingers hefur orðið eftirminnilega gjaldþrota víða um heim, með áhrifamestum hætti í Chile, þar sem Bandaríkin munu þurfa áratugum saman að hafa mikið fyrir því að vinna upp tjónið, sem bandarísk utanríkisstefna varð fyrir með stuðningi við geðsjúkling.

Þau Bonino og Patten bentu á nákvæmlega það sama og hefur mörgum sinnum verið ítrekað hér í blaðinu, að svokölluð raunsæisstefna að hætti Kissingers er afar óhagkvæm, en hugsjónastefna af vestrænni hálfu er hins vegar afar hagkvæm, styður hagsmuni Vesturlanda.

Það er í þágu Vesturlanda, að sem víðast um heim ríki svipað stjórnarfar og á Vesturlöndum, stjórnarfar, sem byggist á lögum og rétti, jafnrétti borgaranna og skilgreindum mannréttindum alls almennings, þar á meðal skoðanafrelsi, prentfrelsi og upplýsingafrelsi.

Það hentar einnig vestrænni kaupsýslu að starfa með ríkjum, þar sem leikreglur eru svipaðar og á Vesturlöndum. Stjórnvöld í þriðja heiminum umgangast erlend fyrirtæki gjarnan af sömu fyrirlitningu og þau umgangast fólkið í landinu, beita þau ofbeldi og öðru gerræði.

Kína er gott dæmi um gerræðisríki, sem beitir íbúana gerræði og hagar sér af svipuðu gerræði gagnvart erlendum fjárfestum, sem hafa verið svo óheppnir að hrífast af draumórum um óendanlega markaðsmöguleika í ríki, sem telur meira en heilan milljarð íbúa.

Chris Patten sagði beinlínis á fundinum: “Bezt er að fjárfesta í ríkjum, sem sýna íbúum sínum mesta mannúð.” Og Emma Bonino sagði: “Mannréttindi og lýðræði þjóna hagsmunum alþjóðasamfélagsins í bráð og lengd.” Hún taldi, að Vesturlöndum bæri að fylgja slíkri stefnu.

Ef Vesturlönd beina viðskiptum sínum einkum til þeirra ríkja, sem hafa vestrænar leikreglur eða þróast hratt í átt til þeirra, verður það til þess að efla hag þessara ríkja umfram önnur og freista ráðamanna annarra ríkja til að feta inn á sömu braut laga og mannréttinda.

Ef Vesturlönd beita efnahagslegu afli sínu til að stækka áhrifasvæði vestrænna leikreglna, eru þau að búa í haginn fyrir traustan alþjóðamarkað, sem hagnast öllum málsaðilum. Gagnkvæma traustið, sem nú ríkir í vestrænum viðskiptum, mundi þá ríkja á mun stærra svæði.

Á nokkrum áratugum hafa safnazt upp ótal dæmi þess, að hagsmunir mannréttinda og kaupsýslu fara saman. Margir kaupsýslumenn hafa farið flatt á að ímynda sér að hætti Kissingers, að gott sé að skipta við ríki, þar sem harðstjórar hafi röð og reglu og haldi fólki í skefjum.

Niðurstaða málsins er einföld. Lögræði og mannréttindi eru ekki bara falleg hugsjón, heldur hagkvæm aðferð við að reka ríki, sem reynist sérstaklega vel í fjölþjóðlegum samskiptum, einkum viðskiptum, enda sýna dæmin, að lýðræðisríki fara ekki í stríð hvert við annað.

Það fer bezt á, að saman vinni þau ríki, sem hafa svipaðar leikreglur. Að baki viðskiptasagnfræði síðustu áratuga er hin gamalgróna staðreynd, að lík börn leika bezt.

Jónas Kristjánsson

DV