Hér verður fíkniefnastríð

Greinar

Fíkniefnamarkaðurinn á Íslandi veltir tveimur milljörðum króna á ári. Hann er orðinn umsvifamikil atvinnugrein og á eftir að vaxa enn frekar, ef við drögum dám af öðrum þjóðum hér eftir sem hingað til. Æ fleiri munu slægjast eftir skjótfengnum auði þessa markaðar.

Hráefniskostnaður greinarinnar er tiltölulega lágur og því mikið svigrúm fyrir annan rekstrarkostnað, svo sem mútugreiðslur og greiðslur fyrir önnur óhæfuverk af ýmsu tagi. Við erum rétt að byrja að sjá framan í þá fylgifiska, sem annars staðar tengjast fíkniefnum.

Reynslan er hvarvetna hin sama. Upp rísa glæpaflokkar, sem oft kallast mafíur og einkennast af algeru samvizkuleysi og ofbeldishneigð. Þeir grafa undan þjóðskipulaginu með því að brjóta sér leið gegnum virkin, sem vestrænar þjóðir slá utan um lög og rétt.

Seint og um síðir hafa þjóðir eins og Ítalir og Bandaríkjamenn tekið ögruninni og ráðizt með þungum fórnum og ærinni fyrirhöfn gegn vágestinum. Við erum svo heppin að vera með seinni skipunum og getum lært af reynslu annarra að vera fljótari en þeir að grípa í taumana.

Fíkniefnakóngarnir ráðast ekki aðeins að lífi og heilsu ógæfusamra viðskiptamanna sinna, heldur grafa þeir undan sjálfu þjóðskipulaginu. Þeir leitast við að hámarka markaðshlutdeild og gróða með því að grafa undan getu þjóðfélagsins til að hamla gegn uppgangi þeirra.

Aðferðirnar eru ýmist ógnanir eða mútur. Menn eru beygðir með beinum eða óbeinum ógnunum um líkamstjón eða fjárhagstjón eða freistað með beinum eða óbeinum mútum, hvort tveggja til að haga störfum sínum á þann hátt, að fíkniefnakóngar hafi rekstrarsvigrúm.

Í eldlínunni eru einkum löggæzlumenn, sem eiga að gæta laga og réttar á þessu sviði; saksóknarar, sem eiga að höfða mál; dómarar, sem eiga að ákveða refsingar; blaðamenn og fréttamenn, sem eiga að segja frá málunum; og stjórnmálamenn, sem eiga að setja lögin.

Í eldlínu fíkniefnastríðsins eru einnig fíklar í hörðum og dýrum fíkniefnum. Erlend dæmi sýna, að þeir eru oft úr bezt stæðu lögum þjóðfélagsins og hafa stundum aðstöðu til að vera birgjum sínum innan handar, þegar kemur að sjálfum innviðum þjóðfélagsins.

Ef aðilar úr þessum mikilvægu hópum hafa ekki nú þegar verið beittir þrýstingi á vegum fíkniefnakónga, mun það gerast á morgun eða hinn daginn. Við lifum ekki lengur í einangruðum og vernduðum heimi sakleysingja. Nútíminn er kominn inn á gafl til okkar.

Nú þegar eða senn mun reyna á borgaralegar dygðir margra einstaklinga og getu þjóðfélagsins til að styðja við bakið á þeim. Koma þarf á fót samstarfi aðila, sem málið varðar, og byggja upp varnir gegn innrásinni, sem verður fyrr en síðar samvizkulaus og ofbeldishneigð.

Þeim mun ákveðnar, sem gengið verður fram í að koma upp varnarkerfi þeirra aðila, sem standa í eldlínunni af hálfu þjóðfélagsins, þeim mun auðveldara verður fyrir einstaklinga innan varnarsveitanna að standast áhlaup óvinarins, hvort sem þau verða blíð eða grimm.

Ekki er eftir neinu að bíða. Fíkniefnamarkaðurinn er kominn upp í tvo milljarða króna á hverju ári og hefur hundruð milljóna til ráðstöfunar til að vernda hagsmuni sína gegn tilraunum samfélagsins til að verja fólk fyrir vörunum, sem fíkniefnakóngar hafa á boðstólum.

Við skulum ekki fara í grafgötur um, að hér verður stríð eins og annars staðar. Við skulum vera undirbúin, þegar kemur að næstu orrustum þessa stríðs.

Jónas Kristjánsson

DV