Sorglegt var að lesa skrifstofustjóra Alþingis verja stuld Samfylkingarinnar á póststimpli Alþingis með því að segja, að þingmenn verði sjálfir að gæta meðalhófs. Hann lét þess ógetið, hvorum megin við meðalhófið væri stuldur á 16.000 póststimplunum.
Alþingi tekur löglegan þátt í ýmsum kostnaði þingmanna og þingflokka, greiðir rekstrarkostnað þeirra upp að skilgreindu marki, sem ákveðið er í fjárlögum hverju sinni. Alþingi á ekki að taka neinn þátt í kostnaði umfram þann, sem þar er skilgreindur.
Alþingi kemur umfram þetta ekkert við, hvað þingflokkar eða þingmenn telja sig þurfa að verja miklu til að halda uppi sambandi við kjósendur. Þeir verða að gera slíkt á eigin kostnað. Og allra sízt kemur Alþingi við boðsbréf til aðalfundar Samfylkingarinnar.
Það er eins og margir átti sig ekki á, að stofnanir þjóðfélagsins eru margs konar og hafa hver sitt verksvið og sínar tekjur. Alþingi er ekki sama og ríkisstjórn, ekki sama og stjórnmálaflokkar og ekki sama og þingmenn. Menn verða að vita, hvað er hvað.
Ekki er nýtt, að menn rugli saman opinberum sjóðum og öðrum sjóðum. Stundum hafa ráðherrar verið staðnir að því að rugla saman ríkissjóði og einkakostnaði sínum og sinna. Þannig ætlaði nýr iðnaðarráðherra að fjármagna afmæli sitt um daginn.
Munurinn á iðnaðarráðherra og þingflokksformanni Samfylkingarinnar er þó mikill, því að ráðherrann sá um síðir eftir öllu saman og lofaði að endurgreiða ríkinu það, sem hún hafði haft af því. Þingflokksformaðurinn er hins vegar enn staffírugur í spillingunni.
Studd öðrum þingmönnum Samfylkingarinnar hefur hún varið þjófnaðinn á póststimpli Alþingis. Hún sér greinilega ekkert rangt við hann. Spilling hennar er einföld og barnsleg: Flokkur hennar þarf að eiga samskipti við fólk og skattgreiðendum ber að borga.
Samfylkingin hefur enga tilraun gert til að endurgreiða stuldinn og biðja forláts á þeim, sem hafa verið settir yfir lítið. Þess vegna er ástæða til að vara kjósendur við því að setja þetta lið yfir mikið. Þeir eru hættulegastir, sem eru einlæglega spilltir.
Þeir, sem reyna að stela meira en hálfri milljón króna í litlu embætti með þröngu svigrúmi, munu reyna að stela margföldum upphæðum í háum ráðherraembættum með víðu svigrúmi. Þeir, sem eru einlæglega spilltir, nýta sér alltaf svigrúmið til fulls.
Skrifstofa Alþingis reynir að hylma yfir spillingunni með því að neita að gefa upplýsingar. Vafalaust mun hún halda fram, að rúmlega ársgömul lög Alþingis um upplýsingaskyldu stjórnvalda nái ekki til sjálfs Alþingis. Þannig er hugarfar innstu koppa búrsins.
Þegar þingmenn og oddvitar þeirra eru svo einlæglega spilltir sem þetta dæmi sýnir og þegar skrifstofustjóri Alþingis muldrar um meðalhóf í spillingu, er kominn tími til að opna fjárreiður Alþingis og leyfa kjósendum að meta, hvað sé spilling.
Allan kostnað, sem ekki fellur innan ramma hinna skilgreindu fjárhæða, sem falla þingmönnum og þingflokkum í skaut lögum samkvæmt, þarf að sundurliða á hvern þingmann. Undir það falla póstburðargjöld og umfangsmeiri liðir á borð við ferðakostnað.
Mörgum mun svo verða minnisstætt, að stjórnmálaflokkur skuli einmitt hefja göngu sína og stimpla sig í þjóðarvitundina með þjófnaði úr opinberum sjóði.
Jónas Kristjánsson
DV