Hópefli Samfylkingar

Greinar

Samfylkingin er ekki enn komin svo langt á ferli sínum, að hún geti farið að taka þátt í að móta umheim sinn. Hún er enn á stigi hópeflis, sem náði hámarki á landsfundi flokksins í vor. Þar gerði nýr formaður flokksins skýran greinarmun á “okkur” og “hinum” í pólitíkinni.

Þetta var líklega nauðsynlegt í stöðunni, enda voru málsaðilar fegnir að geta komið sér átakalítið upp nýju forustuliði í flokknum og hætt að flokka liðsmenn eftir fyrri keppnisliðum þeirra. Til þess þurfti róttækt hópefli og það tókst bærilega á landsfundinum.

Samfylkingin hefur kastað af sér tötrum Alþýðubandalags, Kvennalista og Þjóðvaka og tekið sér stöðu sem stækkaður Alþýðuflokkur með kostum hans og göllum. Hún er Alþýðuflokkur með slæðingi af krötum úr öðrum flokkum á miðju og til vinstri í pólitíkinni.

Samfylkingin hefur líka erft stöðu Alþýðuflokksins sem sérfræðings í könnun á víddum grárra svæða siðferðis og víkkun endimarka þeirra. Hún háði 60 milljón króna kosningabaráttu án þess að geta skýrt, hver borgaði. Og boðsbréf landsfundar frímerkti hún á Alþingi.

Sem formann valdi hún eina frambærilega fulltrúann, sem þó er þeim annmarka háður að mega ekki sjá pólitísk slagsmál án þess að steypa sér sjálfur út í þau. Hann nýtur slíkra slagsmála enn meira en núverandi sendiherra í Washington, þegar sá var formaður forverans.

Þetta getur hentað ágætlega um hríð, sérstaklega meðan verið er að fá félagsmenn til að átta sig á, að þeir eru í þessu liði en ekki einhverju öðru liði. Þegar kemur að hrossakaupum um völdin í þjóðfélaginu, getur slagsmálahyggja orðið nýja flokknum fjötur um fót.

Liður í hópefli Samfylkingarinnar eru kaldar kveðjur, sem nýkjörinn formaður sendi öðrum flokkum, sem starfa með flokksbræðrum hans í Reykjavíkurlistanum og hliðstæðum stjórnmálahreyfingum á nokkrum öðrum stöðum. Þessar kveðjur munu valda langtímavanda.

Næsta þolraun stjórnmálanna verða borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík, sem vinstri menn munu áreiðanlega tapa, af því að þeir eru ekki lengur í sameiningarstuði, heldur í innbyrðis slagsmálastuði, sem stafar af róttækum aðferðum hópeflingar í Samfylkingunni.

Borgarstjórinn í Reykjavík hefur sem sáttasemjari á miðju og vinstra kanti stjórnmálanna litla ástæðu til að þakka nýjum formanni Samfylkingarinnar fyrir framtak hans á sviði pólitískra slagsmála milli allra þeirra aðila, sem verða að standa að Reykjavíkurlistanum.

Ef aftur tekst að sameina þrjá flokka að baki Reykjavíkurlistanum, verður það slíkt átakaverk, að of lítil orka verður aflögu til að heyja baráttu við Sjálfstæðisflokkinn um meirihlutann. Nú þegar hefur skoðanakönnun sýnt, hversu ótraustir eru fætur Reykjavíkurlistans.

Fátt bendir til annars en, að Sjálfstæðisflokkurinn nái borginni með glæsibrag, renni sér létt í þingkosningar ári síðar og myndi áfram stjórn, þar sem leifar Framsóknarflokksins verða notaðar til brýnustu óhæfuverka hverju sinni, svo sem venja hefur verið undanfarin ár.

Þannig bendir fátt til, að Samfylkingin marki spor í stjórnmálunum næstu árin. Hún er ekki nógu siðavönd og of slagsmálafíkin til að geta aflað sér almannatrausts sem hornsteinn stjórnarmyndana. Hún mun fljótlega fá á sig yfirbragð og orðspor gamla Alþýðuflokksins.

Sem oftar má segja um sjúklinginn, að líðan hans er eftir atvikum góð, hann fái nauðsynlega áfallahjálp og sé í stöðugu hópefli, studdu af slagsmálum foringjans.

Jónas Kristjánsson

DV