Tvær þjóðargersemar þessarar aldar, Björk Guðmundsdóttir og Halldór Laxness, eiga ýmislegt sameiginlegt, þótt annað sé misjafnt. Þau eiga sér kjarna í sterkri sjálfsmynd, sem gerir þeim kleift að vinna ótrauð að metnaðarfullum markmiðum sínum og víkja hvergi frá þeim.
Slíka samlíkingu má ekki teygja of langt, enda var Halldór Laxness klassískur rithöfundar og Björk er tónlistarmaður í poppi. Halldór náði ekki almennri viðurkenningu hér á landi fyrr en eftir nóbelsverðlaun, en Björk hefur nánast frá upphafi búið við atlæti þjóðar sinnar.
Enginn nær árangri af þeirra tagi án þess að vita nákvæmlega, hvað hann vill gera, og án þess að víkja öllu öðru til hliðar. Enginn nær árangri af þeirra tagi, ef hann hlustar meira á aðra en á innri rödd. Enginn nær árangri af þeirra tagi án hreins einstrengings í listinni.
Enginn nær árangri af þeirra tagi án þrotlausrar vinnu, sem byggist á kröfunni um, að ekki megi láta neitt frá sér fara fyrr en maður er sjálfur orðinn fyllilega ánægður. Hin sterka sjálfsmynd krefst þess, að verkin endurspegli fullkomnunaráráttu hinnar sterku sjálfsmyndar.
Snilligáfa er sviti að níu tíundu hlutum. Það er ekki nóg að fá góðar hugmyndir. Þær fást ódýrt í kippum. Hugmyndunum verður að fylgja þrotlaus vinna, sem byggist á innri metnaði og sjálfsaga og lýkur ekki fyrr en höfundurinn telur sjálfur niðurstöðuna fullkomnaða.
Við sjáum sömu þætti aftur og aftur, snilligáfu og fullkomnunaráráttu, hlustun á innri rödd og þrotlausa vinnu, sterka sjálfsmynd, sem er óskyld sjálfstrausti. Margir slíkir þættir eru ofnir saman í vað þeirra fáu listamanna, sem við erum sammála um, að séu þjóðargersemar.
Hér á landi sem annars staðar eru gefin út tímarit um gervifrægð með myndum af borubröttu skammtímafólki, sem er frægt fyrir það eitt að vera frægt, en hefur aldrei gert neitt, sem máli skiptir. Það fer með rulluna sína og síðan er því skipt út fyrir næsta gervimann.
Gervifræga fólkið og áhangendur þess þjást af veikri sjálfsmynd. Þetta fólk vill vita, hvað markaðurinn segir hverju sinni, og hagar sér í samræmi við hann. Það hefur ekki innri rödd til að hlusta á og það hefur ekki þrautseigju og úthald til að ná árangri á neinu sviði.
Þjóðargersemar Íslendinga á þessari öld eru alger andstæða gervifólksins. Halldór Laxness vissi sem unglingur, að hann yrði rithöfundur og mundi ekki taka á neinu öðru verki. Hann stóð við þetta og gekk sem sérvitringur sinn grýtta og langa veg inn í þjóðarsálina.
Undanfarin misseri hefur Björk Guðmundsdóttir átt sem listamaður í stöðugum listrænum ágreiningi við samstarfsmann sinn við gerð kvikmyndarinnar, sem fékk gullpálmann í Cannes um helgina. Erjurnar voru neistinn, sem kom kvikmyndinni á þennan leiðarenda.
Til þess að standa á sínu þarf sterka sjálfsmynd og fylgja henni eftir, hvort sem menn gera það með látum eða með hægð. Menn neita að lina listrænan metnað sinn. Halldór Laxness var talinn vera snyrtilegur umrenningur, sem ekki nennti að vinna, og Björk er talin gribba.
Halldór Laxness á þátt í sjálfsímynd Íslendinga með ótal persónum, allt frá Bjarti í Sumarhúsum yfir í Úu af Snæfellsnesi. Björk Guðmundsdóttir á ef til vill eftir að eignast þátt í sjálfsímynd Íslendinga með nýstárlegri innsýn í heima álfa og annarra náttúruvætta.
Við þurfum tæpast meira en tvær þjóðargersemar á hverri öld til að geta fullyrt, að þjóðin hafi þrátt fyrir annmarka sína gengið til góðs götuna fram eftir veg.
Jónas Kristjánsson
DV