Ríkisverzlun fíkniefna

Greinar

Mafíur komust til áhrifa í Bandaríkjunum á bannárunum fyrir stríð. Gróðann notuðu þær meðal annars til að grafa undan þjóðskipulaginu og setja sig í stað ríkisvaldsins. Mörgum áratugum eftir afnám vínbannsins lifa mafíurnar góðu lífi á verzlun fíkniefna.

Það, sem gilti þá um vínbann, gildir núna um fíkniefnabann, ekki aðeins í Bandaríkjunum, heldur um allan hinn vestræna heim. Á svarta markaðinum græðast miklir fjármunir, sem eru meðal annars notaðir til að hefja mafíur nútímans yfir lög og rétt landsins.

Andstæðingar þjóðfélagsins eiga auðveldari leik nú en þá, því að fíkniefni eru minni að fyrirferð og auðveldari í flutningi en áfengi. Enda ná yfirvöld aðeins tangarhaldi á litlu broti ólöglegra fíkniefna og allur þorri glæpamanna á því sviði gengur laus.

Þeir, sem nú hafa verið leiddir fyrir rétt í stærsta fíkniefnamáli Íslandssögunnar, bera aðeins ábyrgð á litlum hluta fíkniefnasölu í landinu. Ekki eru nein merki þess, að fíkniefnum hafi fækkað í umferð. Þvert á móti hefur offramboð lækkað markaðsverð þeirra.

Vandamál þjóðfélagsins af fíkniefnum eru einkum tvenns konar. Annars vegar eru örlög einstaklinganna, sem ánetjast fíkniefnum og kostnaður við tilraunir til endurhæfingar þeirra. Hins vegar er hnignun margvíslegra innviða, sem halda uppi þjóðfélaginu.

Þau fíkniefni, sem hafa verið lögleidd, skaða fíkla og valda miklum kostnaði, en þau grafa ekki undan sjálfu þjóðskipulaginu, af því að ekki myndast neinar mafíur umhverfis þau. Áfengi og prozak grafa ekki undan lögum og rétti á sama hátt og hass og maríjúana.

Þjóðfélagið hefur sjálft yfirtekið heildverzlun og smásölu áfengis og falið læknastéttinni að skammta aðgang að fíkniefnum á borð við prozak. Þannig takmarkar það bölið við fíknina eina og afleiðingar hennar og ver sig gegn valdasamkeppni af hálfu forhertra mafía.

Um nokkurt skeið hafa lærðir menn leitt þung rök að því, að afnema beri bann við sölu fíkniefna og flytja söluna inn í gegnsætt viðskiptakerfi uppi á borði. Tímaritið Economist hefur hvað eftir annað gengið fram fyrir skjöldu í baráttu fyrir því, að fíkniefni verði leyfð.

Markmiðið er að ná tökum á mafíum heimsins og hindra þær í að grafa undan lögum og rétti með mútum og ógnunum, sem hafa áhrif á lögreglumenn, saksóknara, dómara, fréttamenn, stjórnmálamenn og aðra þá, sem koma einna mest að rekstri þjóðskipulagsins.

Ef gróðinn er tekinn úr höndum mafíanna og færður í hendur ríkisvaldsins, losnar það við hættulegasta keppinautinn og fær tækifæri til að stýra verðlagi og hafa áhrif á neyzlu fíkla, auk þess sem það dregur úr glæpum, sem fíklar fremja til að fjármagna neyzlu.

Leiddar hafa verið líkur að því, að fíklum muni fjölga við lögleiðingu fíkniefna, þótt sumir vefengi raunar algerlega, að svo muni verða. Alltjent þarf að fara fram einhvers konar mat á misjöfnu vægi vandamála við svartan markað og gegnsæja verzlun.

Hingað til hafa slíkar hugleiðingar verið gargaðar niður og svo verður enn að þessu sinni. Hitt má ljóst vera, að dag hvern er svarti markaðurinn að grafa undan þjóðskipulaginu jafnt á Íslandi sem annars staðar á Vesturlöndum og sífellt sígur á ógæfuhliðina.

Ríkisverzlun fíkniefna kemur fyrr eða síðar. Því fyrr, sem þjóðfélagið tekur lifibrauðið af mafíum, þeim mun traustari verða hornsteinar laga og réttar í landinu.

Jónas Kristjánsson

DV