Ekki sérlega fínn kóngur

Greinar

Abdullah II Jórdaníukóngur, sem var hér í heimsókn í lok síðustu viku, er ekki sérlega fínn félagsskapur. Ríki hans er ekki lýðræðisríki á vestrænan mælikvarða. Harðstjórn yfirvalda hefur raunar farið vaxandi síðan Abdullah tók við af föður sínum Hussein í fyrra.

Um síðustu áramót voru tólf samvizkufangar í fangelsum Jórdaníu. Fjögur hundruð manns voru handtekin af pólitískum ástæðum á árinu og sextíu þeirra hlutu dóma hjá Öryggisdómstóli ríkisins, sem ekki fer eftir alþjóðlegum stöðlum. Pyndingar eru stundaðar í fangelsum.

Sem dæmi um ástandið í Jórdaníu má nefna, að ritstjóri og útgefandi kvennablaðsins Sawt al-Mar’a voru handteknir í fyrra eftir að hafa birt viðtal við jórdanskan þingmann, sem gagnrýndi forstjóra Öryggismálastofu Jórdaníu. Engar sakir var hægt að finna gegn þeim.

Skömmu fyrir áramót voru sett útgáfulög í Jórdaníu, sem ekki standast alþjóðlega staðla, svo sem Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna. Ríkisstjórn landsins hefur að vísu lýst yfir, að hún ætli ekki að framkvæma hörðustu ákvæðin, en þau standa þó enn.

Suleiman al-Hamdan al’Ajarmeh lézt í fyrra af völdum pyndinga í Öryggismálastofu Jórdaníu, annar fangi missti fjórar táneglur og hinn þriðji fótbrotnaði. Játningar samvizkufanga í fyrra voru í tugum tilvika fengnar með pyndingum, sem skjalfestar hafa verið af Amnesty.

Þetta gerist í tiltölulega menntuðu og þróuðu samfélagi Jórdaníu, þar sem fólk er almennt mjög háttvíst. Raunar geta Jórdanir státað af nokkur þúsund ára sögu hámenningar. Þeir eiga ekki skilið arfakóng, sem hagar sér eins og hann eigi líf og limi fólksins í landinu.

Þótt ástandið sé verra í mörgum löndum, þar á meðal í sumum nágrannalöndum Jórdaníu, svo sem Ísrael, er engin ástæða til að hlaða veizluboðum á smáfanta á borð við Abdullah II. Þeir túlka boð vestræns fyrirfólks sem staðfestingu þess, að þeir megi vera harðstjórar.

Kóngurinn í Jórdaníu og fagra drottningin hans eru semsagt ekki fólk, sem venjulegt og heiðarlegt fólk vildi taka í hendina á og sitja með til borðs. Ástæðulaust er fyrir forseta Íslands að setja ráðherra og embættismenn í þá stöðu að þurfa að bugta sig fyrir slíku fólki.

Sem þingmaður efndi núverandi forseti Íslands til kynna við vafasama náunga í röðum valdamanna í þriðja heiminum, svo sem Mexíkó og Víetnam. Það var sagt gert af viðskiptaástæðum, en ekki verður þó sagt, að neinn hafi orðið loðinn um lófana við að heilsa slíkum.

Ef forsetinn hyggst halda áfram að bjóða hingað illa siðuðum valdhöfum, er kominn tími til að stinga við fótum. Lýðræðissinnum ber skylda til að efna til mótmæla. Leiðara á borð við þennan ber að birta á heimsóknartíma, en ekki eftir hann af kurteisisástæðum.

Meginorsök þess, að lög og réttur dreifist hægt um þriðja heiminn og að alþjóðleg viðskipti eiga erfitt uppdráttar, er andvaraleysi vestrænna ráðamanna og kaupsýslumanna fyrir meginþáttum lýðræðis. Með meiri hörku gegn harðstjórum má ná hraðari árangri.

Með meiri áherzlu á að knýja valdahafa til laga og réttar, til lýðræðis og mannréttinda, skapast betra andrúmsloft og meira öryggi fyrir samskipti og viðskipti af hvers konar toga. Vestrænir ráðamenn, sem flaðra upp um harðstjóra, spilla vestrænum langtíma-hagsmunum.

Frá þessum sjónarhóli var heimsókn Abdullah II Jórdaníukonungs til Íslands utarlega á gráa svæðinu, misráðið gestaboð, sem má ekki verða til eftirbreytni.

Jónas Kristjánsson

DV