Áróður fyrir erfðabreyttu

Greinar

Umhverfisráðherra hefur boðað áróðursherferð fyrir erfðabreyttum matvælum undir merki fræðsluherferðar. Fyrsta skrefið var ráðstefna í vor, þar sem tjaldað var nokkrum sérfræðingum, er höfðu séð ljósið og töldu andstöðu neytenda ekki vera á rökum reista.

Þegar íslenzkir ráðherrar tala um nauðsyn á að upplýsa almenning, meina þeir nánast alltaf, að reka beri áróður fyrir málstað, svo að almenningur fallist á hann. Þannig töluðu þeir um Fljótsdalsvirkjun og heilsugagnagrunn og þannig tala þeir nú um erfðabreytt matvæli.

Hvorki umhverfisráðherra né sérfræðingar hennar hafa hugmynd um, hvort erfðabreytt matvæli séu skaðleg, geti verið skaðleg eða alls ekki. Reynslan sýnir í þessu efni sem öðrum, að hver étur upp úr sínum poka. Fræðimenn hafa skoðun þess, sem borgar fyrir fræðin.

Í Bandaríkjunum segja fræðimenn á vegum ríkisbáknsins, að erfðabreytt matvæli séu ekki skaðleg. Í Evrópusambandinu halda fræðimenn á vegum báknsins hins vegar fram, að mikið eigi enn eftir að rannsaka til að geta haldið fram, að sennilega séu þau ekki skaðleg.

Þetta endurspeglar deilu milli Bandaríkjanna, sem vill selja erfðabreytt matvæli, og Evrópusambandsins, sem ekki vill kaupa þau. Niðurstaðan verður væntanlega sú skynsamlega, að skylt verður að merkja sérstaklega á umbúðir slíkra matvæla, hvernig í pottinn er búið.

Mikill hvellur varð fyrir nokkru í Evrópusambandinu, þegar upp komst, að dálítið af erfðabreyttum repjufræjum hafði óvart komizt í sendingu frá Kanada. Svíar og Frakkar ætla að eyða öllum ökrum, sem repjan komst í, en Bretar og Þjóðverjar ætla ekki að gera það.

Misjöfn sjónarmið austan og vestan hafs stafa einkum af misjöfnu áliti neytenda. Í Evrópu tala menn um Frankenstein-fæðu, sem þeir vilja ekki kaupa, en Bandaríkjamenn hafa til skamms tíma látið sér fátt um finnast. Ýmislegt bendir til, að það síðara sé að breytast.

Það sést af því, að bandarísk fyrirtæki hafa, það sem af er þessu ári, verið að lýsa formlega yfir, að þau hafni erfðabreyttum hráefnum í ýmis matvæli. Þannig hafa nokkur fyrirtæki hafnað slíkum efnum í barnamat og McDonalds er farið að hafna erfðabreyttum kartöflum.

Tvískinnungur er í ýmsum þessum yfirlýsingum, því að McDonalds notar enn erfðabreytta grænmetisolíu og Heinz notar enn erfðabreytta tómatsósu, þótt kartöflur og barnamatur þessara fyrirtækja sé laus við slíkt. Fyrirtækin eru enn að tvístíga og hlusta á markaðinn.

Talið er, að sjö tíundu hlutar matvæla í verzlunum Bandaríkjanna séu erfðabreyttir. Það mun því kosta framleiðendur stórfelldar fjárhæðir að skrúfa fyrir dæmið. Margir hafa þó neyðzt til að gera slíkt til að reyna að verja markað sinn í löndum Evrópusambandsins.

Gera má ráð fyrir, að erfðabreyttur sé meira en helmingur bandarískra matvæla í íslenzkum búðum. Væntanlega verða fyrir áramót settar hér á landi evrópskar reglur um merkingu erfðabreyttra matvæla, svo að neytendur geti sjálfir valið slíkar vörur eða hafnað þeim.

Þessar nýju reglur verða því miður marklausar meðan ekki er neitt opinbert eftirlit með því, hvort merkingar á umbúðum matvæla séu yfirleitt réttar eða ekki. Með tilvísun til laga vísar Hollustuvernd slíku eftirliti eindregið frá sér. Neytendaverndin er því í algeru núlli.

Umhverfisráðherra leysir ekki vanda erfðabreyttra matvæla með áróðri svokallaðra sérfræðinga, sem ekki hafa hugmynd um, hverjar séu staðreyndir málsins.

Jónas Kristjánsson

DV