Siggi Hall

Veitingar

Eðlilegt framhald af sjónvarpsfrægð kokks er, að hann flytji fyrirlestra út og suður, gefi út uppskriftabækur og stofni eigið veitingahús. Það síðasta hefur Siggi Hall einmitt gert á Óðinsvéum í Þingholtunum, þar sem aðdáendur hans geta snætt dýrasta mat í landinu, barið átrúnaðargoðið augum og hlegið að gamansögum þess.

Því settist ég með hálfum huga inn í musteri endurvinnslu frægðar, en varð að lokum feginn, því að Siggi Hall sér vel, hvar ekki er hans þörf og ónáðar ekki gesti, sem eru önnum kafnir að tala um eitthvað annað en hann. Siggi Hall er samt vel sýnilegur og virðist ekki elda neitt sjálfur, er mest í salnum og tekur tilviljanakenndan þátt í þjónustunni.

Umbúnaður veitingasalarins á Óðinsvéum hefur batnað yfir í meiri fúnkis að hætti norrænna hótela. Garðstofa og aðalsalur hafa verið tengd í bjarta heild með stórum gluggum og ljósaljósbláum veggjum og möttum glerskilrúmum. Fínt parket er á gólfinu, bakháir stólar eru þægilegir og borðföng eru stílhrein með hvítu líni. Nakinn staðurinn verður ekki notalegur, fyrr en hann er orðinn hálfsetinn og skvaldrið rennur saman í lystuga hljómkviðu um áttaleytið á kvöldin. Í hádeginu er ekki opið.

Matseðlar eru tveir, annar stuttur og óbreytilegur, með hefðbundnum réttum Sigga Hall, en hinn er nokkru lengri og sagður munu breytast eftir árstíðum. Munur seðlanna er að öðru leyti ekki mikill og báðir fara með löndum. Borðvínaseðillinn er langur og áhugaverður, en gefur aðeins eitt færi á víni í glasatali.

Gott hrásalat með meyrt elduðum hörpudiski var ekki mikið truflað af saffrani og svartsveppum í kryddinu. Enn betri voru niðursneiddir portobello-risasveppir, bakaðir með hvítlauk og basilíku og bornir fram á rúkóla-blaðsalati og ristuðu brauði, með ólífum, dvergtómötum og parma-osti.

Fín laxahrogn með grænkrydduðu laxamauki voru hressandi forréttur og sama var að segja um smábita af hráum saltfiski Esqueixada, vel útvötnuðum, með smábitum af rauðlauki, tómötum, papriku og óvenjulega sterkum ólífum, gott dæmi um, að saltfiskur er yfirleitt miklu betri með spönskum hætti en íslenzkum.

Saltfiskur var einnig góður steiktur, með brenndri skorpu og mjúkur innan, borinn fram með sérrí-legnum rúsínum á spínati og rækilega múskat-krydduðum kartöflusneiðum. Pönnusteiktur skötuselur var meyr og góður, borinn fram með mögnuðum, humarsteiktum hrísgrjónum, blönduðum spínati og papriku.

Kjötréttir reyndust vera veikasta hlið veitingastaðarins. Andabringur með sykurbrenndri skorpu voru fremur mikið eldaðar og ómerkilegar, bornar fram með afar hefðbundnum kartöfluklatta og ræmum af sveppum og gulrótum, en allt þetta drukknaði í feiknarlegu magni af ágætri shiitake-sveppasósu. Gífurlegt magn hlutlausrar sósu drekkti líka blóðbergskrydduðum og fremur mikið elduðum lambarifjum að hætti Sigga Hall.

Eftirréttir voru ekki minnisstæðir, bezt var ekta Crème Brûlèe og lökust var einföld sítrónuterta, en súkkulaðifroða með skornum jarðarberjum og vatnsdeigsbollur með ís og heitri súkkulaðisósu voru þar á milli. Kaffi var gott.

Siggi Hall á Óðinsvéum er með betri veitingahúsum landsins, í flokki með stöðum, sem selja þríréttað með kaffi á 4.000 krónur. Hér kostar slíkt hins vegar 5.100 krónur, svo að menn borga þúsund kall fyrir aðgang að endurvinnslu sjónvarpsfrægðar.

Jónas Kristjánsson

DV