Af langvinnri umræðu í fjölmiðlum um kjör aldraðra mætti halda, að þjóðfélagið hafi hlunnfarið þennan aldurshóp umfram aðra aldurshópa í þjóðfélaginu. Er þá vísað til þess, að síðustu ár hafa kjör aldraðra batnað nokkru hægar en annarra hópa þjóðfélagsins.
Eflaust er nærri lagi, sem sagt hefur verið, að tekjur eftirlaunafólks hafi lækkað hlutfallslega árin 19951998 úr 61% í 54% af tekjum vinnandi fólks. Einnig er eflaust nærri lagi, að eftirlaunafólk þurfi um 67% af fyrri vinnutekjum til að halda óbreyttum lífsstíl.
Þetta segir hins vegar engan veginn alla söguna. Í fyrsta lagi hafa kjör aldraðra batnað, þótt þau hafi batnað minna en annarra í hinni miklu uppsveiflu kjara, sem varð á síðari hluta tíunda áratugarins. Afstæðar tölur um lífskjör eru ekki sama og rauntölur.
Í öðru lagi er brýnt að hafa hliðsjón af öllu kjarauppgjöri kynslóðanna. Slíkt uppgjör er vel þekkt í hagtölum frá vestrænum löndum, en hefur ekki farið fram í neinni alvöru hér á landi. Lausleg athugun bendir þó til óhagstæðrar stöðu ungra og ófæddra.
Ríkisvaldið er sífellt að flytja fé milli kynslóða. Með því að byggja upp varanlega innviði á borð við vegi og hafnir er það að þjóna komandi kynslóðum. Með því að skulda þessar framkvæmdir er það aftur á móti að fresta greiðslunum yfir til komandi kynslóða.
Með því að skoða heildardæmi skattheimtu í þjóðfélaginu, eflingu innviða þess til langs tíma og breytingar á skuldastöðu hins opinbera til langs tíma er með nokkuð flóknum reikningi hægt að segja, hvert fjármagnið sé að renna í uppgjöri kynslóðanna.
Á þriðja fjórðungi síðustu aldar var uppgjörið afar óhagstætt ungum og ófæddum. Þá var óðaverðbólga og fullorðið fólk eignaðist skuldlausar íbúðir með undraskjótri brennslu á verðgildi skuldanna og varð aldrað á vildarkjörum á kostnað komandi kynslóða.
Undir lok aldarinnar hafði þetta lagazt töluvert. Ríkisvaldið var hætt að safna skuldum til að eiga fyrir rekstri líðandi stundar. Sá ósiður hafði að mestu aflagzt að senda reikning óskhyggjunnar til skattgreiðenda framtíðarinnar. Núna er sú aðferð lítið notuð.
Samkvæmt lauslegu kynslóðauppgjöri er Ísland 8% frá kynslóðajafnvægi. Skattar þyrftu að hækka um 8% til að borga niður sameiginlegar skuldir, svo að þær lendi síður á ungum og ófæddum. Þetta er alls ekki mikið ójafnvægi í fjölþjóðlegum samanburði.
Ástandið er skelfilegt í sumum löndum, einkum þeim, sem búa við gegnumstreymi lífeyris á vegum ríkisins, en ekki uppsöfnun hans á vegum lífeyrissjóða, sem við þekkjum hér á landi. Svíar eru með 42% skekkju frá kynslóðajafnvægi og Frakkar 64%.
Í samanburði milli vestrænna landa erum við vel sett með lífeyrissjóði okkar og aðeins 8% skekkju frá kynslóðajafnvægi. Með nýjum reglum um sparnað í þjóðfélaginu er uppsöfnun lífeyris enn að batna hér á landi, þannig að senn verða kjör aldraðra prýðileg.
Þegar öldruðum dugar ekki uppsöfnun eigin lífeyris og umboðsmenn þeirra fara með háværar kröfur á hendur ríkinu, verður að hafa í huga, að ríkið þarf einnig að gæta hagsmuna ungra og ófæddra í heildaruppgjöri peningastraums milli kynslóðanna.
Hinir ungu og ófæddu eiga sér hins vegar ekki þrautreynda og harðskeytta talsmenn eins og hinir öldruðu, sem láta í sér heyra á nánast hverjum degi.
Jónas Kristjánsson
DV