Mannvirki á Suðurlandi stóðust jarðskjálftann á laugardaginn. Þök féllu ekki og veggir stóðu uppi, þótt sumir færðust til. Þetta góða burðarþol er mikil framför frá árinu 1896, þegar 3692 hús hrundu á Suðurlandi, og sýnir, að menn hafa lært nokkuð af reynslu fyrri jarðskjálfta.
Hins vegar kom í ljós, að frágangur húsa á svæðinu var í mörgum tilvikum mun lakari en burðarþolið. Hlaðnir veggir reyndust vera spilaborgir, svo sem búast mátti við. Þeir hrundu, þótt húsin stæðu að öðru leyti uppi. Í sumum tilvikum féllu vikurplötur ofan í rúm.
Jarðskjálftinn varð sem betur fer á miðjum degi. Að næturlagi hefði hann getað valdið slysum á sofandi fólki og jafnvel manntjóni. Okkur ber að læra af þessari heppni og finna leiðir til að ganga betur frá húsum. Ekki er nóg, að burðarþol burðarveggja fari eftir reglugerðum.
Það sýnir andvaraleysi manna á fyrri áratugum, að eitt af hverjum tíu húsum á Suðurlandi er hlaðið úr holsteini, þótt alla öldina hafi verið vitað, að reikna má með sjö stiga jarðskjálftum á svæðinu. Þetta er svipuð fásinna og smíði íbúða á þekktum skriðu- og snjóflóðasvæðum.
Síðan farið var að smíða reglugerðir um burðarþol hafa menn haldið áfram að reisa milliveggi úr léttum steinhellum, sem reistar eru á rönd. Slíkar hleðslur hafa auðvitað engan burð og eru hrein manndrápstæki í jarðskjálftum. Þær hefði skilyrðislaust átt að banna fyrir löngu.
Betra er seint en aldrei að gefa út reglugerð um frágang húsa á skjálftasvæðum. Þegar hafizt verður handa við að lagfæra tjón og greiða það af sameiginlegu tryggingafé, er mikilvægt, að ekki verði gengið aftur frá húsum á sama vonlausa háttinn og hingað til hefur verið leyft.
Flest brýnustu öryggistækin stóðust skjálftann á laugardaginn, þar með taldar brýr og leiðslur, aðrar en hitaveitur. Símstöðvar og bílsímastöðvar stóðust vandann, en gemsastöðvar fóru sumar hverjar úr sambandi um tíma. Alvarlegast var, að FM-útvarp lokaðist í hálftíma.
FM-útvarpið á Suðurlandi kemur frá sendi í Vestmannaeyjum, þar sem vararafstöð var svo illa og aulalega búin, að hún tók ekki við af aðalrafstöðinni fyrr en eftir rúmlega hálftíma hlé. Þetta er eitt af því, sem snarlega þarf að kippa í liðinn að fenginni reynslu.
Ríkissjónvarpið staðfesti veruleikafirringu sína með því að sýna boltaleiki, þegar þjóðin þurfti á fréttum að halda. En það gerði ekki mikið til, því að þjóðin hefur lært að venjast því, að vegna boltafíknar segi sú stofnun ekki einu sinni fréttir á hefðbundnum fréttatímum.
Jarðskjálftinn á laugardaginn var 6,5 stig á Richter og segir ekki fyrir um, hvað muni gerast við 7 stiga skjálfta eins og urðu árin 1896 og 1912. Munurinn á 6,5 og 7 er margfaldur á kvarðanum, sem notaður er. Þetta var því alls ekki hinn margumtalaði Suðurlandsskjálfti.
Því er ekki hægt að fullyrða, að þau öryggisatriði, sem stóðust þennan skjálfta, muni einnig standast mestu skjálfta, sem samkvæmt reynslunni geta orðið á þessu svæði. En við vitum, að það, sem brást, muni einnig bregðast í meiri skjálfta, ef ekkert verður að gert.
Þótt mörgum finnist tjónið hafa orðið mikið og það muni vafalaust nema háum fjárhæðum, þegar allt verður saman talið, má kalla þetta fremur ódýra viðvörun um, að einblínt hafi verið á burðarþol mannvirkja, en síður hugað að öðrum atriðum, sem hættuleg geta verið.
Fyrir tveimur árum sinntu heimamenn lítt úttekt Verkfræðistofnunar Háskólans á stöðu mála. Jarðskjálftinn á laugardaginn ætti að geta vakið þá til verka.
Jónas Kristjánsson
DV