Óvirkar almannavarnir

Greinar

Viðbrögð almannavarna við jarðskjálftanum fyrir viku voru nánast engin. Veðurstofan vanmat skjálftann, öryggisfjölmiðlar tóku sumpart seint og sumpart alls ekki við sér, björgunarsveitir voru ekki kallaðar út og neyðarstöðin á Laugalandi var ekki opnuð.

Atburðarásin varð eins og ekkert skipulag almannavarna við jarðskjálftum væri til. Varnaraðgerðir komu smám saman eins og af sjálfu sér, þegar stundarfjórðungarnir voru farnir að líða hver af öðrum og menn áttuðu sig smám saman á umfangi vandans.

Veðurstofan hafði ekki dómbæran mann á jarðskjálftavakt og hélt fram, að jarðskjálftinn væri ekki nema brot af því, sem hann reyndist vera. Réttar fréttir af styrkleikanum komu fyrst frá Bandaríkjunum og síðan frá óháðri jarðskjálftastofu á Selfossi.

Veðurstofan er fjölmenn stofnun með hverjum sérfræðingnum upp af öðrum. Ódýrara væri að semja við ellilaunafólk um að fylgjast í vaktavinnu með heimasíðum bandarískra veðurstofa og ýta á viðeigandi hnappa, þegar þar er sagt frá hamförum á Íslandi.

Ekkert sjálfvirkt kerfi fór af stað til að koma upplýsingum á framfæri í síopnum fjölmiðlum ríkisins. Lögreglan benti á útvarpið, sem hafði lítið til málanna að leggja, meðan starfsmenn þess flýttu sér í vinnuna. Ríkissjónvarpið hafði bara áhuga á fótbolta.

Engin sjálfvirk öryggistenging fór í gang, þannig að fréttir kæmu til bráðabirgða beint frá Almannavörnum eða Veðurstofunni meðan fréttamenn væru á leiðinni í vinnuna, enda var alls enginn á vakt á fyrri staðnum og enginn kunnáttumaður á hinum síðari.

Á Suðurlandi hafa verið æfð viðbrögð við stórum skjálftum. Enginn setti þessi viðbrögð í gang að þessu sinni. Öryggismiðstöðin á Laugalandi var aldrei opnuð, þótt hún væri nálægt þungamiðju atburðanna. Kalltæki björgunarsveitamanna þögðu þunnu hljóði.

Enginn reyndi að hringja skipulega á bæi til að kynna sér, hvort slys hefðu orðið eða fólk lent í sjálfheldu. Engin tilraun var gerð til að fara skipulega milli bæja til að kanna, hvort björgunaraðgerða væri þörf. Það var eins og allir væru að horfa á fótbolta.

Árvökulir björgunarsveitamenn urðu sjálfir að koma sér á framfæri og forvitnast um, hvort ekki væri eitthvað fyrir þá að gera. Þannig liðu fyrstu klukkustundirnar meðan smám saman var að koma í ljós, að við höfðum verið heppin að þessu sinni.

Atburðarásin var nákvæmlega eins og engar almannavarnir væru til í landinu, engin skipulögð neyðaráætlun með fyrir fram ákveðnu ferli ákvarðana og aðgerða. Menn tóku smám saman við sér, spiluðu eftir eyranu og fóru ekki eftir áður þjálfuðu ferli.

Þetta vekur spurningar um, hvort við þurfum að kosta Almannavarnir af opinberu fé, hvort við þurfum að kosta jarðskjálftavakt af opinberu fé, hvort við þurfum að kosta öryggisfjölmiðla af opinberu fé? Fengist betri þjónusta með því að bjóða hana út?

Auðnuleysi kerfisins um síðustu helgi kom að ofan. Það voru miðstöðvar helztu þátta almannavarna, sem brugðust. Almennir björgunarsveitamenn voru reiðubúnir og almenningur hafði burði til að bjarga sér. Fólk náði sér í réttar fréttir á bandarískum heimasíðum.

Það merkilega er, að trausti rúið kerfi almannavarna hagar sér eins og ekkert hafi í skorizt og gerir enga tilraun til að finna, hvers vegna það fraus.

Jónas Kristjánsson

DV