Eflum trúboð lýðræðis

Greinar

Franski utanríkisráðherrann neitaði að skrifa undir svonefnda Varsjár-yfirlýsingu hundrað ríkisstjórna lýðræðisríkja um framgang lýðræðis í heiminum. Hann sagðist andvígur því, að vestræn ríki reyndu að þvinga lýðræði eins og trúarbrögðum upp á þjóðir heimsins.

Rúmlega hundrað ríki hafa undirritað yfirlýsinguna og þar á meðal Ísland. Með því eru ríkin ekki að gera annað en að staðfesta enn einu sinni sáttmála og yfirlýsingar frá stofnun Sameinuðu þjóðanna, rétt eins og gert var fyrir meira en áratug með svonefndum Helsinki-sáttmála.

Sá undarlegi misskilningur sést oft, að mismunandi viðhorf þjóða liggi að baki misjafns dugnaðar ríkisstjórna við að fara eftir sáttmálum og yfirlýsingum, sem þær hafa játazt með aðild að Sameinuðu þjóðunum og ýmsum öðrum fjölþjóðaplöggum, sem byggð eru á sama grunni.

Sterkast kom þetta fram af hálfu nokkurra einræðisherra í Suðaustur-Asíu, þar sem efnahagsþróun var góð. Þeir sögðu, að sínu fólki hentaði föðurleg umsjá, enda væri það í samræmi við menningararfleifð svæðisins. Vestrænt lýðræði væri þar aðflutt truflun.

Eftir efnahagskreppuna í Suðaustur-Asíu hefur botninn dottið úr kenningu einræðisherranna. Komið hefur í ljós, að ýmsir hornsteinar vestræns lýðræðis eru nauðsynlegir þjóðum þriðja heimsins, ef þær vilja sækja jafnt og þétt fram til bættra lífskjara að vestrænum hætti.

Stjórnarskipti eru nauðsynleg til að spilling grafi ekki um sig. Skipting valdsins er nauðsynleg til að halda uppi öruggu rekstrarumhverfi laga og réttar. Frjáls fjölmiðlun er nauðsynleg til að fólk viti, hvað sé á seyði og sé fært um að taka skynsamlegar efnahagsákvarðanir.

Þetta kemur til viðbótar margvíslegri staðfestingu þess, að þjóðir þriðja heimsins sækjast eftir svokölluðum trúarbrögðum lýðræðis, þótt einræðisherrarnir hafi fullyrt annað. Almenningur vill heiðarlegar leikreglur, öryggi dóms og laga, frjáls skoðanaskipti og stjórnarskipti.

Undir lok tuttugustu aldar bötnuðu aðstæður lýðræðis verulega. Sovétríkin hrundu og kenningin um sérstakt austrænt lýðræði varð siðferðilega og efnahagslega gjaldþrota. Því eru nú betri aðstæður fyrir útþenslu lýðræðis en hafa verið frá upphafi Sameinuðu þjóðanna.

Helsinki-sáttmálinn var upphafið að hruni Sovétríkjanna. Þjóðir Austur-Evrópu sóttu til hans styrk til að rísa upp og varpa af sér oki steinrunninna trúarbragða. Vonandi verður Varsjár-yfirlýsing þessarar viku upphaf nýrrar sóknar lýðræðis gegn harðstjórum heimsins.

Margt er hægt að gera. Sérstaklega er mikilvægt að frysta þá harðstjóra, sem víkja af vegi fyrra lýðræðis, svo sem Alberto Fujimori í Perú og Mahathir Mohamed í Malasíu, úr fínimannsklúbbum landsfeðra, og láta Vladimir Putín í Rússlandi vita, að hann sé á gráu svæði.

Allt efnahagslegt og viðskiptalegt vald í heiminum er hjá þeim helmingi ríkja heims, sem fer meira heldur en minna eftir forsendum lýðræðis eins og þær eru skráðar í stofnskjölum Sameinuðu þjóðanna. Það gefur færi á að efla trúboð lýðræðis um allan helming á nýrri öld.

Þetta trúboð stríðir ekki gegn hefðum og draumum almennings í þriðja heiminum. Það eflir þvert á móti mannlega reisn fólks um allan heim um leið og það stuðlar að efnahagslegri velgengni þess Því meira lýðræði, því færri verða stríðin og því öflugri verða viðskiptin.

Orð franska utanríkisráðherrans hljómuðu eins og flugusuð í hljómkviðu ríkjanna hundrað, sem skrifuðu undir trúarjátningu lýðræðis í Varsjá í þessari viku.

Jónas Kristjánsson

DV