Tungumál guðs

Greinar

Vísindamenn hafa lært tungumál guðs við sköpun mannsins. Í því eru aðeins fjórir bókstafir, sem raðast á ýmsa vegu í þriggja milljarða röð bókstafa í 23 bókarköflum. Þannig raðast erfðavísar í bókarkafla litninga og mynda heila bók erfðamengis hvers manns.

Þótt vísindin séu komin á slóð guðs með því að finna mestallt handritið að sköpun mannsins, eiga þau langt í land við að nota þá þekkingu til að búa til Snorra-Eddur sköpunarverksins. En þau eru komin á slóðina og hingað til hefur ekkert getað stöðvað vísindin.

Á næstu árum munu verða stórstígar framfarir í staðsetningu veikleika mannsins í þessari miklu lífsins bók. Nú þegar vita vísindamenn mikið um, hvar í litningum sjúkdómar eiga rætur sínar og vilja afla sér nánari staðsetningar með hinni nýju þekkingu.

Vitað er, að alzheimer er í fyrsta litningi, ristilkrabbi í öðrum litningi, lungnakrabbi í þriðja litningi, parkinson í fjórða litningi og svo framvegis. Næsta skref verður að staðsetja slík vandamál nánar, svo að skipta megi inn heilum erfðavísum fyrir gallaða.

Flestir sjúkdómar eiga sér rætur í veikleikum í genamengi mannsins, sem magnast við ytri aðstæður, eins og segir í spakmælinu, að fjórðungi bregði til fósturs. Þannig eiga hjartamein, krabbamein, áfengismein og raunar flest líkamsmein rætur sínar í erfðavísum.

Lífsskilyrði og lífsstíll ráða svo í mörgum tilvikum, hvort þessi mein verða hættuleg heilsu manna. Mikil áherzla verður því lögð á hvort tveggja í senn, að breyta lífsskilyrðum og lífsstíl fólks og að laga það, sem aflaga hefur farið, með íhlutun í erfðamengi þess.

Ekkert þýðir að efast um réttmæti innrásar sérfræðinga inn á verksvið guðs. Engin leið er að sjá það ferli fyrir sér, að siðfræðilegar eða guðfræðilegar efasemdir muni hemja sókn vísindanna innar á þau svæði, sem hingað til hafa verið talin einkalönd guðs.

Pólitískur ótti við villta vestur erfðafræðinnar í einkageiranum hefur leitt til þess, að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands hafa knúið aðilana tvo, sem langfremst standa, til að leggja saman þekkingu sína og færni og opinbera lífsbókina öllum lýðum.

Annar þessara aðila er bandaríska einkafyrirtækið Celera og hinn er brezk-bandaríska rannsóknastofnunin National Human Genome Research Institute. Þeir hafa verið að finna upp hjólið samtímis, en munu nú væntanlega snúa bökum saman og skipta verkum.

Vegna þessa samstarfs yfir Atlantshafið verður líklega ókleift að búa til einkaleyfavædda einokun í rannsóknum á þessu sviði. Það þýðir, að miklu fleiri geta tekið þátt í kapphlaupinu og að framfarir fræðanna verða sennilega enn örari hér eftir en hingað til.

Ekki er hægt að sjá, að þessi niðurstaða muni skaða önnur fyrirtæki, sem ætla sér hlut í frekari þróun málsins, svo sem þau fyrirtæki, sem starfa á Íslandi, deCODE genetics og Urður Verðandi Skuld. Þvert á móti gæti birting gagna hjálpað slíkum fyrirtækjum.

Athyglisvert er þó, að ríkisstjórnir Bandaríkjanna og Bretlands kusu að hafna einkaleyfum og að krefjast opinberunar gagna, en fóru ekki leið íslenzku ríkisstjórnarinnar að gefa einu gæludýri sínu ókeypis einokun á erfðaupplýsingum um lífs og liðna Íslendinga.

Ekki er ofsagt, að uppgötvun tungumáls guðs á sjálfri lífsbókinni og opinberun upplýsinganna feli í sér mesta afrek og mestu tímamót vísindasögunnar.

Jónas Kristjánsson

DV