Leigubílaokur getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir stétt leigubílstjóra í heild og fyrir ferðaþjónustuna í heild, þótt einstakir leigubílstjórar geti um tíma makað krókinn með því að misnota einkaleyfi samgönguráðuneytisins og vanþekkingu erlendra ferðamanna.
Prag í Tékklandi er gott dæmi um þetta. Á flugvellinum féflettu leigubílstjórar ferðamenn, sem þurftu að fara til borgarinnar. Því hefur verið sett þar upp skrifstofa, þar sem ferðamenn upplýsa, hvert þeir ætla að fara og fá stimplað, hvað þeir eigi að borga.
Allar leiðsögubækur ferðamanna, sem máli skipta, vara fólk við leigubílstjórum í Prag. Hvort sem þú flettir í Eyewitness, Insight eða Lonely Planet, þá er sama sagan á ferð. Fólki er ráðið frá að taka leigubíla í Prag og því er bent á ýmsar leiðir til að forðast þá.
Gamlar syndir lifa í leiðsögubókum, jafnvel þótt upprunalegt ástand hafi verið lagað. Langt er milli nýrra útgáfna og fólk notar oft mun eldri útgáfur en þá nýjustu. Þannig getur verið erfitt að losna við óorð, sem menn koma á sig með tímabundinni gróðafíkn.
Straumur upplýsinga um hættusvæði fyrir ferðamenn er orðinn miklu hraðari en áður. Ferðamenn, sem verða fyrir slæmri reynslu af leigubílstjórum á Keflavíkurflugvelli, segja frá því í nokkrum umræðuhópum, sem starfræktir eru á veraldarvefnum.
Þessum frásögnum er haldið til haga af ritstjórnum stóru ferðatímaritanna og ferðahandbókanna, sem kanna málið og fá staðfest, að ekki sé allt með felldu í leigubílaakstri frá Keflavíkurflugvelli. Skriða vandamálsins er runnin af stað og verður ekki stöðvuð.
Ef ferðamálastjóri heldur í alvöru, að þetta valdi ferðaþjónustunni í landinu ekki búsifjum, er hann búinn að missa tilfinninguna fyrir markaðinum eða hefur ekki kynnt sér, hvernig upplýsingar flæða hraðar og grimmar í nútímanum en þær gerðu áður fyrr.
Samgönguráðherra getur ekki vikið sér undan ábyrgð á málinu með yfirlýsingu um, að til greina komi að víkka svæðaskiptingu leigubíla seinna. Þetta er bara hefðbundinn ráðherravaðall, sem kemur að engu gagni á líðandi stund, þegar skriðan er að renna af stað.
Samgönguráðuneytið gaf út reglugerðina, sem veitir fámennum hópi manna einkaleyfi til leigubílaaksturs frá Keflavíkurvelli. Nú þegar dæmi hrannast upp um misnotkun þessa einkaleyfis, getur ráðherra hætt að blaðra og afturkallað einkaleyfið fyrirvaralaust.
Sérstaklega er þetta mál hættulegt fyrir stétt leigubílstjóra í heild. Ef margir útlendingar heyra eða lesa, að íslenzkir leigubílstjórar séu glæpamenn, sem menn eigi að forðast, er hætt við að markaður fyrir leiguakstur þrengist frá því, sem annars hefði orðið.
Veruleikinn kann að vera skárri en hér hefur verið lýst. Verkfalli langferðabílstjóra kann að ljúka strax. Fyrnast kann yfir okur leigubílstjóra. Allt kann að falla aftur í ljúfa löð. En eftir situr, að staðbundin einkaleyfi til leiguaksturs eru úrelt og skaðleg.
Hinn seki í þessu máli er fyrst og fremst samgönguráðuneytið, sem gefur út staðbundin einkaleyfi handa skálkum og dregur einkaleyfin ekki til baka, þegar skálkarnir misnota þau. Ráðuneytið bjó til skortinn, sem leiðir gróðafíkla af vegi dyggðarinnar.
Dæmið frá Prag sýnir, að tímabundin gróðafíkn getur haft afleiðingar, sem eru þúsund sinnum dýrari en sem nemur illa fengnum gróða nokkurra skálka.
Jónas Kristjánsson
DV