Einkalíf peninga

Greinar

Slæma útreið fengu tilraunir nokkurra forustumanna ungra sjálfstæðismanna til að vekja athygli á, að friðhelgi einkalífsins eigi að ná til álagningarskrár skatta. Þeir lentu að vísu aðeins óbeint í klóm fjölmiðla, en beinlínis í klóm reiðs almennings, sem vildi komast í skrárnar.

Ekki var við að búast, að hugmyndafræðingunum tækist það, sem fjármálaráðuneytinu hefur ekki lánazt, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir á síðustu árum. Almenningsálitið er fylgjandi opnum álagningarskrám og hefur notið stuðnings Alþingis gegn leyndarþrá ráðuneytismanna.

Eftir uppákomuna eru leyndarsinnar fjær því en áður að ná fram svipaðri skilgreiningu á víðáttu einkalífs og gildir í sumum nálægum löndum, þar sem álagningarskrár eru ekki birtar. Íslendingar eru frá fornu fari vanir því, að þessar skrár liggi frammi í kaupfélaginu.

Aðgangur að álagningarskrám er eins konar kjötkveðjuhátíð á Íslandi. Í nokkra daga á ári fá menn að gramsa í því, sem aðrir menn telja heilagt, og geta haft stór orð um getu sumra til að koma tekjum sínum hjá skatti, áður en grár hversdagsleikinn ríður aftur yfir.

Opnar álagningarskrár hafa þann lýðræðislega kost að stuðla að gegnsæi í þjóðfélaginu. Þær þrengja möguleika kerfisins á að varðveita göt á skattakerfinu og þrengja möguleika þeirra, sem eindregnast vilja komast hjá því að greiða opinber gjöld. Þær gera suma menn hlægilega.

Í þessu efni sem ýmsum öðrum takast á kennisetningar um friðhelgi einkalífs og gegnsæi lýðræðisþjóðfélags. Það getur verið álitamál eftir aðstæðum á hverjum stað og tíma, hvar skuli draga mörkin. Leyndarsinnaðir embættismenn hafa ráðið of miklu um skilgreininguna.

Að baki tilrauna forustumanna ungra sjálfstæðismanna eru tilraunir skoðanabræðra þeirra víða um heim til að víkka hugtak einkalífsins og láta það ná til peninga og fyrirtækja, rétt eins og þessi lögformlegu fyrirbæri séu eins konar persónur, sem hafi eigið líf og eigin sál.

Með því að kalla fyrirtæki lögpersónur er verið að gefa í skyn, að persónuvernd eigi að ná til fyrirtækja og fjármagns. Oft ráða samkeppnishagsmunir því, að ráðamenn fyrirtækja reyna að virkja hugtak friðhelginnar í þágu sjónarmiða sinna. Og þeim tekst það stundum.

Mikilvægt er að gera greinarmun á þörfum fólks fyrir friðhelgi einkalífs, til dæmis á heimili sínu, og á peningalegum og rekstrarlegum hagsmunum af ýmsu tagi, sem reyna að sigla undir fölsku flaggi friðhelginnar. Hinar umdeildu álagningarskrár eru dæmi um þetta.

Erlendis eru farin að sjást merki þess, að þrengt verði að möguleikum fjárhagslegra hagsmuna til að fela sig í skjóli persónuverndar. Evrópusambandið og Bandaríkin gerðu í vor hríð að smáríkjum, sem hafa reynt að græða á bankaleynd í þágu peningaþvottar af ýmsu tagi.

Bankaleyndarríki á borð við Lichtenstein eru að lenda í vaxandi erfiðleikum í samskiptum sínum við umheiminn. Refsiaðgerðir Evrópusambandsins geta orðið því dýrt spaug. Svisslendingar eru skref fyrir skref að draga úr bankaleynd sinni til að sefa bandaríska reiði.

Þótt hagsmunaskákin teflist fram og aftur, má sjá þá meginlínu á Vesturlöndum, að vörnin þyngist hjá þeim, sem vilja bregða leyndarhjúp yfir rekstur og fjármálaumsvif fyrirtækja og einstaklinga. Krafan um gegnsætt samfélag verður sífellt þyngri á metaskálunum.

Þess vegna er holur hljómur í tilraunum til að víkka hugtök einkalífs og friðhelgi frá persónum yfir á peningalega og rekstrarlega hagsmuni á borð við skatta.

Jónas Kristjánsson

DV