Ljósleiðari heimilanna

Greinar

Reykjavíkurborg hyggst gefa öllum borgarbúum kost á öflugu netsambandi fyrir menntun og myndsíma, sjónvarp og stafræn samskipti, verzlun og öryggiskerfi. Þetta verður gert með sérstakri knippatækni í ljósleiðurum, sem lagðir verða til allra heimila.

Meirihluti Reykjavíkurlistans telur, að fyrirtækið Lína.Net, sem er að mestu í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, hafi eitt yfir að ráða tækni frá símafyrirtækinu Ericsson, sem geri þetta einstæða stórvirki kleift á skömmum tíma á fjárhagslega skynsamlegan hátt.

Minnihluti Sjálfstæðisflokksins efast um þetta og vill láta bjóða verkið út í stað þess að semja við Línu.Net. Efasemdirnar eru ekki trúverðugar, því að undirbúningur málsins hefur staðið lengi og öllum fyrirtækjum á þessu sviði verið gefinn kostur á að bjóða þjónustu.

Tölvuráðgjafi borgarinnar telur, að enginn annar en Lína.Net geti boðið þjónustuna um þessar mundir. Önnur fyrirtæki kunna að geta eitthvað svipað, þegar fram líða stundir, en verðið frá Línu.Neti er svo gott, að ástæðulaust er að bíða með hendur í skauti.

Ef nýja tæknin virkar, virðist einsýnt, að Sjálfstæðisflokkurinn getur aðeins tapað á tilraunum sínum til að tefja málið. “Þetta er flokkurinn, sem reyndi árið 2000 að koma í veg fyrir ljósleiðara inn á hvert heimili”, verður sagt í næstu kosningabaráttu.

Þegar um uppgötvanir er að ræða, fer samanburður milli fyrirtækja eftir því, hvort þau hafa yfir hinni nýju tækni að ráða eða ekki. Þegar um þróaða framleiðslu er að ræða, sem margir geta boðið, fer samanburðurinn einkum eftir því verði, sem fyrirtækin geta boðið.

Þótt útboð geti ekki útvegað borgarbúum ódýrari aðferð við að fá ljósleiðara inn á hvert heimili, þá er útboð venjulega ódýrasta leiðin, þegar þjónusta er keypt. Þess vegna hefur borgin ákveðið að hafna einokun Landssímans og bjóða út símaþjónustu fyrir sig.

Athyglisvert er, að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og samgönguráðherra Sjálfstæðisflokksins hyggjast ekki láta bjóða út símaþjónustu á vegum ríkisins. Áhugi flokksins á kenningum um markaðsgildi útboða fer eftir ýmsu öðru en málefnalegum forsendum.

Þegar margir aðilar geta boðið símaþjónustu, er eðlilegt, að stórir viðskiptaaðilar á borð við ríki og borg bjóði þjónustuna út. Þegar aðeins einn aðili getur boðið upp á tækninýjung, er eðlilegt að grípa gæsina, í stað þess að tefja málið með langvinnu útboðsferli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hins vegar þá stefnu, að útboð skuli ekki fara fram, ef þau eru í óþökk Landssímans, en þau skuli hins vegar fara fram, ef þau beinast gegn keppinautum Landssímans. Þetta er eini sameiginlegi þráðurinn í fjarskiptastefnu flokksins.

Annaðhvort lánast ljósleiðaravæðing heimilanna í Reykjavík eða ekki. Um það mun málið snúast í næstu borgarstjórnarkosningum. Allt bendir til, að borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðismanna hafi afhent meirihluta Reykjavíkurlistans áróðursvopn á silfurfati.

Öflugt netsamband sérhvers heimilis verður væntanlega ein helzta skrautfjöður borgarinnar á næstu árum. Reykvíkingar komast í fararbrodd þróunar fjarskiptatækni fyrir almenning. Þetta er glæsilegt og hagkvæmt markmið, sem er og verður borginni til sóma.

Meirihlutanum í Reykjavík ber að halda sínu góða striki í þróun fjarskiptatækni fyrir alla borgarbúa og láta úrtölur minnihlutans ekki tefja fyrir.

Jónas Kristjánsson

DV