Fjöldamorðingi á þingi

Greinar

Eftir viku mun Alþingi Íslendinga heiðra einn þekktasta fjöldamorðingja, sem nú er uppi, Li Peng, forseta kínverska þingsins. Hann er einn helzti ráðamaður Kína og átti mikinn þátt í fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar í Beijing 4. júní 1989.

Li Peng fær viðhafnarmóttökur á Alþingi, þar sem ráðamenn munu bukka sig og taka í blóði drifna hönd hans. Með því munu þeir innsigla velþóknun sína á vinnubrögðum Li Peng og pólitíska glæpaflokksins, sem ræður ríkjum í Kína og raunar nokkru víðar.

Þessi móttaka er þar að auki ámælisverð fyrir þá sök, að kínversk stjórnvöld hafa sýnt Íslandi frekju og lítilsvirðingu með tilraunum til afskipta af innanríkismálum okkar og hótunum um refsiaðgerðir vegna opinberrar heimsóknar ráðamanns frá Taívan.

Taívan er starfrækt sem fullvalda lýðræðisríki með flutningi valds milli stjórnmálaflokka í kosningum, með frjálsum fjölmiðlum, lögum og rétti. Skipan þjóðmála er þar með svipuðum hætti og hér, sem hlýtur að leiða til vinsamlegra samskipta og kaupsýslu.

Ekkert af því, sem greinir lýðræðisríki frá öðrum ríkjum, er sjáanlegt í Kína. Til dæmis hafa erlend fyrirtæki rekið sig á, að þau njóta ekki verndar laga og réttar í Kína, ef ráðamönnum hentar að kúga þau. Kína er land geðþóttaákvarðanna af hálfu glæpamanna.

Verktakar og fjárfestar um allan heim hafa farið illa út úr viðskiptum við Kína. Samt eru Orkuveita Reykjavíkur og Virki að hætta sér í sama svartholið og lakkrísverksmiðjan fræga á sínum tíma. Í tilviki orkuveitunnar er óbeint um fé skattborgara að ræða.

Þingið í Kína gegnir ekki sama hlutverki og Alþingi Íslendinga. Þingið í Kína er fyrirfram skipulögð leiksýning til að fagna ákvörðunum stjórnvalda. Alþingi Íslendinga er hins vegar virkur aðili að þjóðmálunum, að vísu minni máttar aðili, en virkur samt.

Vafasamar eru opinberar heimsóknir milli stofnana, sem gegna svona misjöfnu hlutverki, jafnvel þótt allt væri að öðru leyti með felldu. Mestu máli skiptir þó, að nóg er til af hugsanlegum gestum frá löndum, sem búa við þá skipan þjóðmála, sem við höfum hér á landi.

Raunar ættu lýðræðisríki heims með Bandaríkin og ríki Evrópusambandsins í broddi fylkingar að fara að flokka samskipti við ráðamenn ríkja, þar á meðal heimsóknir, eftir því, hversu náið þeir fara eftir ákvæðum stofnsamþykkta Sameinuðu þjóðanna.

Það er í þágu framvindu lýðræðis og frjálsrar kaupsýslu í heiminum, að samskipti séu sem mest og greiðust milli ríkja, sem fara í öllu eftir leikreglunum, en stigmögnuð frysting sé á samskiptum við þau ríki, sem víkja langt frá þessum leikreglum.

Ef við tökum Serbíu og Írak sem dæmi, þá væri öflugra að banna landgöngu yfirstéttarfólks á Vesturlöndum heldur en að beita efnahagslegum refsiaðgerðum, sem koma harðast niður á almenningi. Glæpalýðnum finnst t.d. vont að geta ekki verzlað í París.

Það er gersamlega út úr kú, að Alþingi skuli einmitt bjóða hingað stjórnanda leiksýningar, sem á ekkert skylt við þingræði; alræmdum ofbeldismanni, sem stóð fyrir einu þekktasta blóðbaði síðustu áratuga; fulltrúa ríkis, sem hefur sýnt Íslandi dónaskap.

Dagurinn 2. september verður dagur niðurlægingar Alþingis, þegar þingforsetar munu stilla sér upp í röð til að hneigja sig fyrir og taka í höndina á Li Peng.

Jónas Kristjánsson

DV