Ráðuneytisstjóri sjávarútvegsmála og einn af helztu höfundum kvótalaganna hefur með ráðherravaldi verið gerður að hæstaréttardómara til að tryggja meirihluta í dómstólnum með kvótanum. Í þessu skyni gekk ráðherra framhjá reyndum héraðsdómurum.
Þetta atvik er gott dæmi um takmarkanir lýðræðis á Íslandi, annars vegar of litla skiptingu valds og hins vegar of lítið aðhald almennra leikreglna. Það sýnir líka, hversu nauðsynlegt var fyrir okkur að gangast undir fjölþjóðavald Evrópska efnahagssvæðisins.
Frá Evrópu kemur krafan um, að lýðræði sé annað og meira en kosningar á fjögurra ára fresti og alræði ráðherra þess á milli. Þar er krafizt skiptingar ríkisvaldsins á marga staði. Þar er krafizt laga og reglugerða, sem fela í sér leikreglur fyrir alla jafnt.
Aðild okkar að evrópskri samvinnu hefur gert Hæstarétt að fífli. Hvað eftir annað hafa dómar hans verið gerðir afturreka á meginlandinu og íslenzka ríkið neytt til að greiða ríkisborgurum bætur, ef þeir hafa haft bein í nefinu til að sækja réttlæti til Bruxelles.
Stjórnvöld tregðast við að læra af þessari reynslu. Þau nota skipunarvald ráðherra yfir dómsvaldinu til að skekkja dóma í þágu kerfisins. Þau semja lög og reglugerðir til eflingar sérréttinda forréttindahópa, sniðganga til dæmis leikreglur í þágu kvikmyndagerðar.
Dálæti kjósenda og stjórnvalda á gerræðisvaldi ráðherra minnir á ástand fyrri alda hér á landi, þegar innlendir embættismenn stóðu þvert fyrir rétti almúgans. Þá sóttu duglegir bændur rétt sinn til kóngsins í Kaupinhafn. Nú sækja menn rétt sinn til Bruxelles.
Meðvitundarleysi íslenzkra kjósenda gagnvart vestrænum leikreglum lýðræðis, skiptingu ríkisvaldsins og annarri takmörkun þess felur í sér afsal borgaralegra réttinda og um leið afsal fullveldis í hendur Stóra bróður í Bruxelles, sem leiðréttir íslenzk stjórnvöld.
Gildi hinnar óbeinu aðildar okkar að Evrópusambandinu felst ekki nema að litlu leyti í efnahagslegum ávinningi af aðgangi að markaði. Miklu meira máli skiptir aðgangurinn að vestrænum leikreglum og jöfnu réttlæti fyrir alla, vernd gegn gerræði ráðherra.
Íslenzka ríkið er hins vegar oftast og ekki sízt núna rekið í þágu forréttindafyrirtækja, er fá sérleyfi og einkaleyfi á vegum ríkisins, svo sem kvóta og gagnagrunn, og hafa aðstöðu til að kaupa ríkisfyrirtæki fyrir lítið og breyta ríkiseinokun í einkaeinokun.
Röð dæmanna ætti að skelfa kjósendur. Síldar- og fiskimjölsverksmiðjurnar voru gefnar kolkrabbanum. Bifreiðaeftirlitinu var breytt í einkaeinokun, sem hélzt árum saman. Fjárfestingarbanka atvinnulífsins átti að afhenda kolkrabbanum á silfurfati, en tókst ekki.
Forsætisráðherra okkar skiptir skapi, þegar forréttindadæmið gengur ekki upp. Refsivöndurinn er hafður á lofti og gerræðið er skammt undan. Allt þetta láta kjósendur sér vel líka og munu staðfesta hið séríslenzka ástand í næstu alþingiskosningum.
Áður hefur verið sagt hér í leiðara, að ekkert sé það að á Íslandi, sem ekki megi laga með því að skipta um kjósendur. Það er nefnilega kjarni málsins, að íslenzka ráðherraveldið hefur blómstrað í skjóli kjósenda. Meðan þeir kveina ekki, heldur gerræðið sínu striki.
Við þessar aðstæður er eðlilegt að ljúka hverjum degi með því að prísa Stóra bróður í Evrópusambandinu, sem sættir sig ekki við séríslenzka vitleysu.
Jónas Kristjánsson
DV