Fáokun olíufélaganna

Greinar

Sökudólgar hins háa olíu- og benzínverðs á Íslandi eru ekki bara ríkisvaldið og olíuríkin, þótt olíufélögunum hafi bærilega tekizt að skjóta þessum málsaðilum fyrir sig í vörninni. Ef innkaupsverð og skattar eru dregnir frá, kemur í ljós, að eftir stendur allt of hátt verð.

Allar þjóðir, stórar og smáar, standa nokkurn veginn jafnfætis á hráefnismarkaði olíunnar, eins og hann mælist í Rotterdam. Dæmi úr íslenzkri verzlun sýna, að smáir kaupmenn geta orðið aðilar að stórum keðjum, sem ná beztu afsláttum út á mikil viðskipti sameiginlega.

Eigi að síður er gjaldið, sem íslenzku olíufélögin taka, mun hærra en þekkist annars staðar í Evrópu. Verð án skatta á 95 oktana benzíni er tólf krónum hærra á lítrann en í stóru löndunum í Evrópu og átta krónum hærra en í ýmsum smáríkjum, sem búa við sérstakar aðstæður.

Sem dæmi um fámennt ríki má nefna Luxemborg, þar sem verð án skatta á 95 oktana benzíni er átta krónum lægra en hér. Sem dæmi um landlukt ríki, sem ekki hefur aðgang að ódýrum sjóflutningum, má nefna Austurríki, þar sem verðið er líka átta krónum lægra en hér.

Þetta verður að hafa í huga, þegar talsmenn íslenzku olíufélaganna bera við langri siglingu hingað. Sjóflutningar eru ódýrustu flutningar, sem til eru. Nokkurra daga sigling til Íslands getur ekki bætt mörgum krónum á hvern lítra ofan á verðið, sem aðrar þjóðir greiða.

Ef tekið er tillit til fjarlægðar og smæðar markaðarins, má með sanngirni segja, að verðið, sem íslenzku olíufélögin taka sjálf til sín, sé að minnsta kosti fimm krónum of hátt á hvern lítra af 95 oktana benzíni. Sá verðmunur er hreinn aukakostnaður þjóðarinnar af fákeppni.

Það fer ekki framhjá neinum, sem fylgist með benzínverði, að svo undarlega vill til, að þeir, sem reikna verðþörfina hjá olíufélögunum, komast alltaf að nákvæmlega sömu niðurstöðu á nákvæmlega sama tíma. Þetta heitir á máli olíufélaganna, að þau hafi ekki samráð um verð.

Við búum við hálft þriðja olíufélag og tilheyrandi fáokun á markaði. Þetta kostar þjóðina um það bil fimm krónur á hvern lítra af 95 oktana benzíni. Þessar krónur fara samkvæmt hagfræðilögmálum í óeðlilega dýran rekstur fáokunarfyrirtækja og í eignasöfnun þeirra.

Þetta er nákvæmlega sama sagan og í ýmsum öðrum mikilvægustu greinum verzlunar og þjónustu á Íslandi. Hvarvetna eru eitt, tvö eða þrjú félög, sem skipta með sér markaði og halda uppi á háu verði. Þess vegna borgum við of mikið fyrir lán og tryggingar, flug og fragt.

Rugludallar stjórnmálanna vilja sameina banka, þótt þeir séu þegar orðnir svo fáir, að um hreina fáokun er að ræða og fjögurra til sex prósenta hærri vaxtamun en í öðrum löndum Evrópu. Staðreyndin er sú, að við búum við vaxtaokur í skjóli fáokunar á bankamarkaði.

Við þekkjum ástandið í tryggingunum, þar sem félögin safna ótrúlega digrum sjóðum í skjóli fáokunar. Flugfargjöld hafa lengi verið sorgarsaga, sem allir þekkja, enda eru fræg dæmi um, að miklu dýrara er fyrir Íslendinga en útlendinga að fljúga með Flugleiðum.

Hingað til hafa íslenzkir neytendur virzt njóta þess að láta kvelja sig með þessum hætti. Tilraunir til samstöðu bíleigenda hafa farið út um þúfur. Hagsmunaaðilar hafa meira kveinað undan svipuhöggum fákeppninnar og eru nú að ræða svör við háu verði á olíu og benzíni.

Við val á viðbrögðum ættu þeir að muna eftir, að hátt verð á olíu og benzíni stafar meðal annars af okri hálfs þriðja olíufélags í skjóli langt leiddrar fáokunar.

Jónas Kristjánsson

DV