Eðlilegt er, að Vesturveldin aflétti nú þegar viðskiptabanni á Serbíu, þar sem skrímslið með engilsvipinn er flúið af hólmi og löglega kjörinn forseti hefur náð völdum í landinu. Forsendur viðskiptabannsins á Serbíu eru því hamingjusamlega brostnar.
Slobodan Milosevic var hinn illi andi Serba og stóð fyrir endurteknu áreiti við nágranna þeirra. Hann átti mikinn þátt í að gera áreitið óvenjulega fólskulegt með því að senda brjálæðinga á vettvang til að fremja sögufræg illvirki, sem lengi verða blettur á Serbum.
Vegna voðaverka Serba í Króatíu, Bosníu og Kosovo hefur verið stofnaður fjölþjóðlegur stríðsglæpadómstóll í Haag, sem hefur þegar dæmt nokkra Serba og á eftir að dæma fleiri, þótt höfuðpaurarnir hafi ekki enn náðst. Milosevic er eftirlýstur stríðsglæpamaður.
Vojislav Kostunica hlaut tilskilinn meirihluta atkvæða í forsetakosningunum 24. september, þrátt fyrir umfangsmiklar atkvæðafalsanir af hálfu stuðningsmanna Milosevics. Þegar falsanir atkvæða nægðu ekki, var gripið til þess ráðs að reyna að falsa úrslitin.
Þetta sætti þjóðin sig ekki við og tók völdin í landinu á fimmtudaginn var. Engar blóðsúthellingar urðu, því að hvorki her né lögregla höfðust að. Völdin láku einfaldlega úr höndum Milosevics, sem reyndist harla vinafár, þegar viðhlæjendur hans létu sig hverfa.
Þótt viðskiptabanni verði núna aflétt, fer því fjarri, að samskipti Serbíu og umheimsins komist af sjálfu sér í eðlilegt ástand. Vijislav Kostunica er róttækur þjóðernissinni, sem afneitar ábyrgð Serba á voðaverkum og sakar Atlantshafsbandalagið um stríðsglæpi.
Kostunica hefur sagt, að Milosevic verði ekki framseldur stríðsglæpadómstólnum í Haag. Sennilega þýðir það, að hann verði ekki heldur fús til að framselja ýmsa helztu brjálæðingana á borð við Radovan Karadzic og Ratko Mladic í hendur alþjóðlegrar réttvísi.
Meðan Kostunica og mikill meirihluti Serba lifa í afneitun voðaverkanna er engin ástæða til, að Vesturveldin geri meira en að aflétta viðskiptabanni. Stuðningur við efnahagslega uppbyggingu Serbíu af vestrænni hálfu kemur ekki til greina að svo komnu.
Raunar er Kostunica svo róttækur þjóðernissinni, að hann sagði nýlega, að Serbar muni hvorki þiggja hjálp að vestan né austan við uppbyggingu landsins. Sú yfirlýsing einfaldar málið og dregur úr líkum á, að vestrænir leiðtogar freistist til að ausa fé í Serbíu.
Með byltingunni 5. nóvember hafa vandræði Balkan-skaga ekki verið leyst. Hins vegar hafa skyndilega myndazt forsendur til að þróa smám saman samskipti Serba annars vegar og annarra þjóða skagans hins vegar á þann veg, að sárin grói á löngum tíma.
Serbía hefur ekki í einni svipan hætt að vera krabbamein Balkanskagans. En versta æxlið hefur allt í einu verið skorið og sjúklingnum getur batnað með tíð og tíma. Eitt skref er upphafið að sérhverju löngu ferðalagi og Serbar hafa stigið þetta fyrsta skref.
Ósigur skrímslisins með englasvipinn er mikill sigur fyrir Evrópu og vestræna hugmyndafræði. Forsendur lýðræðislegs samfélags hafa verið endurreistar í drungalegasta afkima álfunnar. Ljósið að vestan mun óhjákvæmilega lýsa upp þessar leifar miðalda.
Balkanskagi var á tuttugustu öld kveikjan að tveimur heimsstyrjöldum. Þess má nú vænta, að skaginn verði friðsamur á tuttugustu og fyrstu öld.
Jónas Kristjánsson
DV