Samhengi kostnaðar og tekna er óbeint og takmarkað, hvort sem samkeppni ríkir eða ekki. Samkeppni styðst þó við þetta samhengi, þegar fyrirtæki þróa aðferðir til að lækka kostnað sinn og síðan verð afurða sinna til að geta lækkað verðið og náð betri markaðshlutdeild.
Þegar eitt fyrirtæki er komið með meira en helmings markaðshlutdeild á sínu sviði, svo sem sameinaður Landsbanki og Búnaðarbanki í almennum bankaviðskiptum, hætta samkeppnislögmál að virka og við taka fáokunarlögmál, sem við þekkjum betur úr ríkisrekstri.
Hvort sem ríkir samkeppni eða fáokun, þá miðast tekjur í rekstri síður við kostnað heldur en mat á því, hvað markaðurinn þolir. Þannig koma nýjar uppfinningar yfirleitt inn á markað á tiltölulega háu verði, sem lækkar síðan, þegar aðrir koma í kjölfarið og samkeppni eykst.
Sagan segir okkur, að einokun uppfinningamannsins breytist smám saman í samkeppni markaðsþjóðfélags, sem síðan breytist smám saman með samruna í fáokun. Mikilvægir þættir íslenzks athafnalífs eru komnir á þetta síðasta stig fráhvarfs frá markaðsbúskap.
Bankarnir verða komnir á lokastig þessa ferils, þegar Landsbankinn og Búnaðarbankinn sameinast. Við þekkjum ekki dæmi þess í útlöndum, að slík sameining hafi verið viðskiptamönnum til hagsbóta. Þvert á móti hefur hún reynzt leiða til verðhækkana á þjónustu.
Stuðningsmenn sameiningarinnar segja, að með henni náist hagræðing, sem leiði til minni heildarkostnaðar, er síðan geti skilað sér í minni mun á innlánsvöxtum og útlánsvöxtum, þannig að bankinn taki minna í sinn hlut í vaxtamun. Þessi firra styðst ekki við neina reynslu.
Þvert á móti leiðir sameining bankanna til þess, að þeir geta betur en áður sett viðskiptamönnum sínum stólinn fyrir dyrnar. Sameiningin mun ekki leiða til þess að nýja báknið þurfi minna í sinn hlut og geti minnkað vaxtamuninn. Þvert á móti mun græðgi báknsins aukast.
Við þekkjum þetta ferli af lögmálum Parkinsons og Péturs. Alltaf er matsatriði, hver skuli vera kostnaður í rekstri. Ráðamönnum ríkisfyrirtækja og fáokunarfyrirtækja finnst jafnan, að þeir þurfi meiri tekjur og beita ráðandi markaðsstöðu sinni til að afla þeirra.
Gróðabilið, sem myndast við þetta, er síðan fyllt upp með kostnaði. Ráðnar eru silkihúfur hver upp af annarri. Sérhver starfsmaður reynir að fylla tómarúm aðgerðaleysis með athöfnum, sem hafa ekkert rekstrarlegt gildi, en gefa þá tilfinningu, að menn séu önnum kafnir.
Þetta gerist einmitt vegna hins vanmetna hagfræðilögmáls, að samhengi tekna og kostnaðar er yfirleitt lítið og óbeint, en samhengið er aftur á móti yfirleitt mikið og beint milli tekna annars vegar og hins vegar mats á því, hvað markaðurinn þolir við aðstæður hverju sinni.
Þetta ættu allir að vita, sem kalla sig hagfræðinga, viðskiptafræðinga eða fjármálafræðinga. Samt hefur ótrúlegur fjöldi þeirra lýst yfir stuðningi við fyrirhugaða sameiningu Landsbankans og Búnaðarbankans, sumir af hreinni fáfræði, en aðrir í vondri trú og hagsmunagæzlu.
Með sameiningu tveggja helztu stofnana almennra bankaviðskipta er ríkið enn að efla fáokun sem sérkenni íslenzks atvinnulífs. Ríkisstjórnin er að staðfesta, að hún vilji bankafáokun til hliðar við benzínfáokun, tryggingafáokun, flugfáokun, orkufáokun og símafáokun.
Viðskiptamenn bankanna munu tapa á sameiningunni. Vaxtamunur mun aukast til lengdar, því að reynslan sýnir að algild lögmál fáokunar láta ekki að sér hæða.
Jónas Kristjánsson
DV