Þar sem smjörið drýpur

Greinar

Fjórir af hverjum tíu landsbyggðarbúum vilja flytjast til höfuðborgarsvæðisins og þrír af hverjum tíu íbúum höfuðborgarsvæðisins vilja flytjast til útlanda. Þessi niðurstaða skoðanakönnunar DV í gær sýnir greinilega, að Reykjavík er ekki endastöð byggðaröskunar á Íslandi.

Þrepahlaup búferlaflutninga á Íslandi er frá sveitum til sjávarplássa, frá sjávarplássum til kaupstaða, frá kaupstöðum til Reykjavíkur og frá Reykjavík til útlanda. Sumir koma við á öllum þessum stöðum, aðrir stíga eitt skref og enn aðrir taka þau flest eða öll í einu stökki.

“Enn erum við að flytja”, sagði Stefán Jónsson rithöfundur í einni Hjaltabókinni. Íslendingar hafa alltaf verið að flytja og eru enn að flytja. Stundum stafar það af illri nauðsyn, en oftast eru það þó tækifærin, sem freista. Þéttbýlið býður meiri fjölbreytni og möguleika.

Mikilvægasti þáttur þessara flutninga er atgervisflóttinn. Þeir, sem hafa áræði eða menntun, flytja sig um set, af því að þeir treysta sér til að ná árangri á nýjum stað. Hinir, sem varfærnari eru og minna menntaðir, treysta sér síður til að hleypa heimdraganum.

Ríkisvaldið hefur í vaxandi mæli litið á hluta þessa ferlis sem vandamál, það er að segja flutning fólks til höfuðborgarsvæðisins, en hefur um leið lokað augunum fyrir flutningnum til útlanda. Milljörðum króna er varið árlega í ótal anga svokallaðs jafnvægis í byggð landsins.

Atkvæði eru látin vega þyngra í strjálbýli en þéttbýli. Spöruð er vegagerð í Reykjavík til að bora göng í dreifbýlinu. Hefðbundnum landbúnaði er beinlínis haldið gangandi með ríkisfyrirgreiðslum. Þannig er á ýmsan hátt reynt að koma í veg fyrir, að fólk flytjist búferlum.

Stundum hefur byggðastefnan orðið að byggðagildru. Fólk er hvatt til að reisa sér hús á verðlitlum stöðum. Fólk er hvatt til að leggja hlutafé í verðlítil fyrirtæki. Sveitarfélög setja fé sitt í áhættu í stað þess að nota það til þjónustu við fólk. Síðan hrynur þetta dæmi.

Gallinn við alla þessa dýru fyrirhöfn er, að Reykjavík er ekki endastöðin, heldur umheimurinn. Ef ráðamenn misþyrma höfuðborgarsvæðinu eins og núverandi vegamálaráðherra er að reyna, þá dregur það úr getu þess svæðis til að hamla gegn atgervisflótta til útlanda.

Kalifornía heillar tölvusnillingana, New York og London heilla fjármálasnillingana, sólarstrendur Spánar og Karíbahafs heilla þá, sem hafa nóga peninga og vilja hafa það náðugt. Þriðji heimurinn heillar ævintýramenn. Og Norðurlönd heilla þá, sem vilja mildara samfélag.

Spurningin er ekki, hvort Bolungarvík geti keppt við stórborgir, sólarstrendur og samfélag í útlöndum, heldur hvort höfuðborgarsvæðið geti það. Eina byggðastefnan, sem að gagni getur komið, er sú, sem snýst um, hvernig draga megi úr flótta atgervis og peninga til útlanda.

Staðbundnar atvinnugreinar á borð við landbúnað, fiskvinnslu og iðnað freista ekki lengur fjármagns og starfskrafta. Álvinnsla er meira að segja orðin fátæktargrein, sem þjóðir reyna að koma yfir á herðar þriðja heimsins. Í dag gilda frjálsar greinar á borð við hugbúnað.

Byggðastefna á Íslandi á ekki að snúast um, hvort fólk flýr smábyggðir eða ekki, heldur hvort byggð helzt í landinu yfirleitt eða ekki. Með því að efla svæðið, sem helzt getur haldið til jafns við útlönd, er bezt hlúð að framtíð hins örsmáa nútímaþjóðfélags á Íslandi.

Skoðanakönnun DV sýnir, að Íslendingar vita, hvar smjörið drýpur. Sumir eru farnir að flýja land meðan stjórnvöld streitast við að verja Bolungarvík.

Jónas Kristjánsson

DV