Sápuópera þáttastjóra

Greinar

Í bandarískum fjölmiðlum hefur undanfarnar vikur verið fjallað um í drep, hvort Al Gore sé lyginn og George Bush sé heimskur. Hvorugu er til að dreifa. Samt hefur umræðan um þessar ímyndanir öðlazt sjálfstætt líf, sem hefur skyggt á aðra þætti kosningabaráttunnar.

Fjöðrin, sem varð að hænum, felst í, að Gore hefur stundum verið ófeiminn við að túlka málsaðild sína í hærri kantinum og að Bush hefur stundum komizt klaufalega að orði, þegar hann hefur ekki skoðað mál ofan í kjölinn. Þetta gerir hvorugan vanhæfan sem forseta.

Að baki umræðunnar um lygi annars og heimsku hins felst breyting í fjölmiðlun. Fyrir nokkrum áratugum voru fjölmiðlar einkum dagblöð, sem þá voru eindregin málgögn annars málsaðilans og fluttu það mál, sem frambjóðandinn vildi koma á framfæri við kjósendur.

Síðan urðu dagblöðin óháð og fóru að gæta óhlutdrægni í framsetningu sinni. Áfram voru það frambjóðendur, sem gáfu tóninn, þannig að kosningabaráttan einkenndist af þeim atriðum, sem frambjóðendur lögðu áherzlu á. Þetta ástand er það, sem nú ríkir í kosningum á Íslandi.

Bandarísk fjölmiðlun er komin á þriðja stigið, sem felst í að sjónvarpið hefur tekið við af dagblöðum sem hreyfiafl kosninga. Í vaxandi mæli koma frambjóðendur beint fram við kjósendur sem sviðspersónur og eru metnir eins og leikarar eða leikmenn. Þeir eru orðnir stjörnur.

Þáttastjórar eru allt öðruvísi hliðverðir en gömlu greinahöfundarnir. Nú er fjallað í sjónvarpinu um, hvort framganga þessa frambjóðandans eða hins hafi uppfyllt áður fram settar væntingar þáttastjóra eða brugðist þeim. Smám saman eru byggðar upp ímyndaðar persónur.

Í hugarheimi þáttastjóra rekur framboðin ýmist undan veðrum eða að þau ná áttum. Snemma í kosningabaráttunni eru búnir til persónugallar hvors frambjóðanda og síðan fjallað endalaust um þá fram og aftur. Smíðaðir eru brandarar um lygi annars og heimsku hins.

Munurinn á þessu þriðja stigi og hinum tveimur fyrri er, að frambjóðandinn og fulltrúar hans hafa misst tökin á umræðunni. Þeir geta ekki lengur komið á framfæri málefnum frambjóðandans og verða þess í stað að bregðast við ímyndarheimi þáttastjóra í sjónvarpi.

Forsetaframbjóðendurnir háðu þrjá málfundi í sjónvarpi. Málefni fundanna hafa alveg fallið í skugga umræðu bandarískra þáttastjóra um, hvort öðrum frambjóðandanum hafi tekizt að komast hjá að mismæla sig og hinum hafi tekizt að komast hjá að ýkja gildi sitt.

Á málfundi númer tvö varð Bush að þylja smáatriði til að sýna fram á, að hann gæti það og Gore varð að vera ljúfmannlegur til að sýna fram á, að hann gæti það. Þeir voru að bregðast við ímynduðum persónuleika, sápunni, sem þáttastjórar höfðu áður búið til handa þeim.

Svo kvarta menn um, að of lítill munur sé á frambjóðendunum. Það er alrangt. Djúp gjá er milli sjónarmiða þeirra. Meðferð þeirra á forsetaembættinu verður gerólík. Auðvelt á að vera fyrir kjósendur að taka til þeirra afstöðu, sem byggist á grundvallarsjónarmiðum.

Þetta sjá menn hins vegar ekki fyrir leiksýningunni eða kappleiknum, sem þáttastjórar sjónvarps hafa framleitt. Í moldviðrinu sjást helzt ímynduð persónueinkenni og ímyndaðir gallar. Kosningabaráttan er orðin að einni sápuóperunni til viðbótar öllum hinum.

Mikilvægt er að finna sem fyrst fjórða stig fjölmiðlunar í kosningabaráttu, svo að menn hætti að rugla saman persónum í framhaldsþáttum og stjórnmálamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV