Versnandi veðurspá

Greinar

Vísindasamfélagið í heiminum er orðið nokkurn veginn sammála um, að jörðin sé að hitna af mannavöldum og að afleiðingarnar verði illviðráðanlegri en hingað til hefur verið talið. Þetta kemur fram í þúsund blaðsíðna milliríkjaskýrslu Alþjóðlegu veðurstofunnar.

Mikill fjöldi vísindamanna hefur lagt efni til skýrslunnar, sem verður lögð fram á alþjóðlegum fundi í Haag síðar í þessum mánuði, framhaldsfundi hinnar frægu Kyoto-ráðstefnu árið 1997. Vísindaleg andmæli við hinar svartsýnu niðurstöður eru orðin hverfandi.

Þetta er þveröfugt við það, sem Bjorn Lomborg telur í bók sinni: “Hið sanna ástand heimsins”, sem hefur verið gefin út af hagsmunaðilum mengunar í nokkrum löndum, þar á meðal Íslandi. Hann taldi Kyoto-samkomulagið hafa gengið of langt í dýrkeyptum gagnaðgerðum.

Með hliðsjón af nýjum gögnum, sem hafa bætzt við á allra síðustu árum, hafa loftsslagsfræðingar komizt að raun um, að ástandið hafi stórversnað síðan málin voru skoðuð árin 1990 og 1995 og að breytingarnar stafi af mannavöldum, en séu ekki eðlilegar sveiflur.

Skýrslan gerir ráð fyrir, að tímamót hafi orðið á þessu sviði um 1980. Fram að þeim tíma hafi verið hægt að líta á hækkun hitastigs sem sveiflu í tíðarfari, en síðan hafi ferlið verið með þeim hætti, að maðurinn einn hafi getað verið orsakavaldur og geti einn lagað stöðuna aftur.

Vandamálið felst mest í óbeinum áhrifum hækkunar hitastigs, einkum þeim, að sjór er farinn að ganga á land og mun stefna byggðum við sjávarsíðuna í hættu. Ennfremur mun breytingin færa til fiskistofna, þannig að þorskur flytur sig frá Íslandi norðar í höf.

Reiknað er með, að stormar og flóð verði tíðari en áður, svo sem menn hafa þegar tekið eftir. Þetta er einkum alvarlegt fyrir stormasvæði eins og Ísland. Þannig má búast við margvíslegum vandræðum á Íslandi, þótt hækkun hitastigs ein út af fyrir sig geti verið notaleg.

Því er nú slegið föstu, að hækkun hitastigs stafi af losun lofttegunda af völdum mannsins, einkum brennslu á kolum og olíum, en einnig af ýmiss konar stóriðju, svo sem áliðnaði. Því er Kyoto-fundurinn ekki lengur talinn hafa gengið of langt, heldur fremur of skammt.

Frá síðustu ísöld hefur hitinn á jörðinni ekki hækkað um meira en 5 stig alls á Celcius. Skýrslan fyrir Haag-fundinum gerir ráð fyrir, að á nýrri öld muni hitinn geta hækkað um 6 stig á Celcius. Þá verður enginn Vatnajökull lengur til að gefa orku í Kárahnjúkavirkjun.

Ástæða er að vekja athygli á, að málið er ekki lengur þess eðlis, að hægt sé að afgreiða það út af borðinu sem enn eina heimsendaspána. Vísindasamfélagið er í stórum dráttum sammála um stöðuna og mun beita ríki heimsins miklum þrýstingi til samræmdra gagnaðgerða.

Skýrslan og fundurinn í Haag munu leiða til aukinna krafna um, að ríki heimsins staðfesti skömmtunarkerfi loftmengunar, sem samþykkt var í Kyoto og fari að leggja drög að enn harðari mengunarskömmtun, sem miðist við nýjustu niðurstöður vísindalegra rannsókna.

Þetta ferli mun minnka svigrúm ósvífinna stjórnmálamanna til að komast undan Kyoto-reglunum og búa til sjónhverfingar til að verja álver á Reyðarfirði. Stækkun Norðuráls ein út af fyrir sig fer langt út fyrir þá mengunaramma, sem okkur voru settir í Kyoto árið 1997.

Núverandi stefna stórvirkjana og stóriðju á Íslandi verður vafalaust endurskoðuð, þegar menn átta sig á, að þeir hafa ekki frítt spil, þegar hætta steðjar að.

Jónas Kristjánsson

DV