Sticks ´n Sushi

Veitingar

Japanskt stríðsöskur
Nakinn staður með stórum gluggum án tjalda, hvítu lofti og ljósum veggjum án mynda, rauðu gólfi og svörtum búnaði með hörðum setum í beinum röðum japanskrar herfylkingar. Þjónninn grýtti á okkur kveðju með japönsku stríðsöskri. Ísafoldarhúsið gamla er komið fagurlega endurgert í Aðalstræti og orðið að japönsku veitingahúsi spartverskrar naumhyggju.
Reyktur eikarilmur leyndi sér ekki og yfirgnæfði pylsufnykinn frá Ingólfstorgi, sem læddist inn með okkur. Eikarkolagrillun er ein sérgreina staðarins. Aðaltrompið er þó sushi, himinhátt að gæðum yfir verksmiðjuvörunni, sem menn kaupa í stórmörkuðum og minni háttar veitingastöðum.

Hrár fiskur
Minnisstæðast af eikargrilluðu var beikonvafinn emmenthaler ostur, kjúklingur með blaðlauk og andabringa, allt saman undurmeyrt og gott, en dökka kjötið var örlítið ofgrillað. Þyngra var að gera upp á milli alls hins góða sushi, en vinninginn höfðu laxahrogn og humar, tígrisrækja og hörpudiskur.
Matreiðslan er hér aðeins fern. Hrár fiskur á hrísgrjónaköggli heitir sushi, hrár fiskur einn út af fyrir sig sashimi, hrár fiskur og hrísgrjón í þangrúllum maki og eikargrillaður matur á tréprjónum heitir yakitori. Með matnum er svo stöðluð sojabaunasúpa, sem heitir miso, piparrótarmauk, sem heitir wasabi og loks engifer.

Japanskur kokkur
Íslenzkir þjónar eru fagmenn, sem þekkja allt út í æsar. Þolinmóðir geta þeir svarað vinsamlega ýtrustu spurningum. Í kjallaranum sá Philip Kamata í láni frá móðurskipinu við Nansensgade í Kaupmannahöfn um að eldamennskan væri eins japönsk og innréttingarnar.
Hvað gera staðarhaldarar, þegar Kamata fer utan? Getur íslenzkur matreiðslumaður haldið Sticks ‘n Sushi í sama toppgæðaflokki og hann hefur verið fyrsta mánuð ævinnar undir japanskri handleiðslu?

Gott verð
Þetta er eina alvöru Japanshúsið í veitingaflóru landsins. Einu sinni var til Samurai í Ingólfsstræti, sem fór vel af stað, en varð snemma lélegur og andaðist fyrir löngu saddur lífdaga. Fremur gott sushi hefur að undanförnu verið reitt fram á Tveimur fiskum við Geirsgötu, en stenzt þó ekki samanburð við Sticks ´n Sushi. Annað sushi hér á landi en þetta tvennt stendur ekki undir nafni.
Fimm matseðlar búa yfir tíu einingum, mismunandi blöndum af sushi og yakitori og kosta 2.300­2.500 krónur á mann. Margar tegundir af sushi, sashimi, maki og yakitori fást í stykkjatali, algengast á 290­340 krónur stykkið. Hagkvæmir eru fimmtán bitar af maki á 1.980 krónur.
Í hádeginu er boðið upp á miso, tvenns konar maki, tvenns konar sushi og tvenns konar yakitori á 1.160 krónur, fínt verð, enn ein tilraunin til að fá okkur úr mötuneytunum til að borða úti í hádeginu.
Sticks ´n Sushi
Aðalstræti 12, sími 511 4440
Opið í hádeginu og á kvöldin.

Jónas Kristjánsson

DV