Auðugir og án afsökunar

Greinar

Jarðvegsrannsóknir sýna, að sögualdarfólk reið um háreista skógarlundi upp fyrir Hvítárvatn, þar sem fundizt hafa kolagrafir frá þeim tíma. Síðan reið það á algrónu landi yfir Kjöl, unz skógar tóku við í heiðalöndum norðan Hveravalla. Á allri þessari leið var landið algróið.

Eini langi fjallvegurinn, sem ekki var algróinn, var Sprengisandur, þar sem fólk þurfti að ríða á ógrónu um 20 kílómetra kafla á sandinum hæstum. Þá var næga beit og nóg vatn að hafa í Ódáðahrauni, sem nú er svo þurrt og laust, að sandfokið ógnar byggð í Mývatnssveit.

Á þessum tíma var land nokkurn veginn algróið upp í 800 metra hæð og skógar náðu 400 metra hæð. Landið jafnaði sig fljótt eftir eldgos og aðrar náttúruhamfarir. Þannig var landið, sem forfeður okkar tóku að láni hjá landvættunum fyrir rúmlega ellefu hundruð árum.

Meðan náttúruhamfarir voru einar um hituna, ógnuðu þær ekki lífríki landsins. Maðurinn þurfti að koma til skjalanna með skógarhöggi og ofbeit. Hálendið fékk þó að mestu að vera í friði fram eftir öldum, enda voru stundaðar fráfærur og sauðfé var lítt eða ekki rekið á afrétti.

Lokahnykkurinn á tilræði forfeðra okkar við landvættina varð, þegar hálendið var tekið undir sauðfjárbeit seint á 19. öld og með vaxandi þunga fram eftir 20. öld. Á þessum síðustu og verstu áratugunum voru víðerni landsins rústuð af langöfum okkar og öfum og feðrum.

Landeyðing tuttugustu aldar stafaði ekki af illri nauðsyn fátæks fólks. Hún stafaði beinlínis af ríkidæmi þjóðarinnar, sem græddi á sjávarútvegi og gat ausið milljörðum króna á hverju ári til að þenja sauðfjárhald út fyrir allan þjófabálk. Við höfum alls enga afsökun.

Þjóðin eyddi landinu hraðast, þegar hún var orðin ríkust. Hún notaði auðlegð sína til ótakmarkaðs stuðnings við sauðfjárrækt, sem framleiddi óseljanlega vöru. Fjöldi fullorðins sauðfjár var kominn upp fyrir 800.000, þegar menn gáfust upp og fóru að takmarka styrkinn.

Undanfarna tvo áratugi hefur sauðfé fækkað mikið og gróður er víða kominn í jafnvægi, þótt ekki sé farið að endurheimta þann, sem áður hafði glatazt. Sumir afréttir eru þó enn á undanhaldi, einkum á eldvirka beltinu, sem greinilega þarf algera friðun til að jafna sig.

Þótt mikið af unnizt á afmörkuðum svæðum, fer því þó fjarri, að vörn hafi verið snúið í sókn. Við þurfum að leggja harðar að okkur við að skila landvættunum aftur þeim verðmætum, sem forfeður okkar fengu lánuð hjá þeim. Til þess höfum við meira en nóg af seðlum.

Enn er því miður nóg af hryðjuverkamönnum, sem hata landið og vilja reisa steypublokkir umhverfis Elliðavatn, fækka þeim stöðum, þar sem ekki sést til rafmagnslína, reisa stíflur og safna í uppistöðulón með breytilegu vatnsborði, eyða gróðurverum í skjóli jökla.

Sú verkfræðilega árátta, að landið beri að nýta sem mest, á greiðan aðgang að ríkisstjórnarflokkunum, hvort sem þeir starfa saman að orkumálum á landsvísu eða að skipulagsmálum í Kópavogi. Þetta er ekki efnahagsleg árátta, því að auðlegð okkar rís á öðrum grunni.

Við eigum ekki landið, sem við búum í. Við getum í mesta lagi sagt, að við höfum fengið það til láns og varðveizlu, svo að afkomendur okkar geti einhvern tíma samið frið við landvættina. Við þurfum því að skera upp herör gegn hatursmönnum hinna ósnortnu víðerna.

Sigursæl barátta gegn Eyjabakkavirkjun var aðeins léttur undanfari stríðsins, sem verður háð á næstu árum fyrir hönd landvætta gegn hryðjuverkamönnum.

Jónas Kristjánsson

DV