Tillögur íslenzku ríkisstjórnarinnar um sérstaka undanþágu til stóriðjumengunar fyrir smáríki á borð við Ísland hafa engan hljómgrunn á alþjóðaráðstefnunni í Haag um framvindu loftslagssáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þingið telur sig hafa öðrum hnöppum að hneppa.
Vísindasamfélagið í heiminum hefur náð samkomulagi um, að breytingar af mannavöldum á andrúmslofti jarðar séu orðnar mun alvarlegri en áður var talið og séu þegar farnar að leiða til vandræða. Fræðimenn hafa komið sér saman um skýrslu, sem liggur fyrir ráðstefnunni.
Ekki skiptir minna máli, að flóð og stormar undanfarinna mánaða og missera eru í auknum mæli talin stafa af mengun af mannavöldum. Að minnsta kosti hefur það haft áhrif á Evrópusambandið, sem samþykkti nýlega herta umhverfisstefnu fyrir fundinn í Haag.
Evrópusambandið er í Haag upptekið af að ná samkomulagi við Bandaríkin, sem vilja meira svigrúm eða meiri undanbrögð að sögn annarra. Rætt um heimild til viðskipta með mengunarkvóta og frádrætti fyrir ríki, sem hjálpa þróunarlöndum til að bæta umhverfið.
Ekki verður þess vart í Haag, að neinn hafi áhuga á að opna fyrir undanbrögð á borð við þau, að ríki, sem notar vatnsorku til álvinnslu, fái undanþágu frá mengunarreglum, sem samþykktar voru í Kyoto 1997 á vegum Sameinuðu þjóðanna og bíða nú staðfestingar ríkja heims.
Þá benda nýjustu rannsóknir, sem liggja fyrir fundinum í Haag, til þess, að þar verði ekki veittur afsláttur fyrir skógrækt, því að í ljós hefur komið hjá borgarorkuveitunni í Tokyo og raunar víðar, að slíkar undanþágur hafa hreinlega öfug áhrif við það, sem ætlað var.
Með vaxandi tilfinningu ríkisstjórna heims fyrir umfangi vandans í andrúmsloftinu dofna líkur fyrir nýju álveri á Reyðarfirði. Vafasamt er, að Norsk Hydro geti sóma síns vegna átt þátt í að reisa álver í ríki, sem neitar að staðfesta Kyoto-sáttmálann og Haag-útfærslu hans.
Líklegasti kosturinn í stöðunni er, að við slíkar aðstæður verði heimilað að kaupa mengunarrétt handa Reyðaráli. Sá kostnaður verður mjög hár, leggst auðvitað ofan á annan kostnað við álverið og leiðir til þrýstings á, að undirverðið á rafmagninu verði lækkað enn frekar.
Ekki er víst, að samkomulag náist milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á ráðstefnunni í Haag. Hugsanlega þarf enn frekari storma og flóð til að nógu margir átti sig á alvarlegum breytingunum í andrúmsloftinu. Því kunna umhverfissóðar að fá frekari gálgafrest.
Það breytir því ekki, að markmiðin um minni losun gróðurhúsalofttegunda, sem voru sett í Kyoto, verða notuð, þegar kemur að staðfestingu. Ef menn hafa reist álver í millitíðinni, verða þeir að greiða afturvirkt fyrir það í beinhörðum peningum, en ekki með skógrækt.
Tilraunir utanríkisráðherra Íslands til svigrúms innan Kyoto-sáttmálans til að koma upp álveri heima í kjördæminu hafa lent í auknum mótbyr á ráðstefnunni, sem nú stendur yfir í Haag. Þar hrista menn hausinn yfir undanbrögðum og vífilengjum Halldórs Ásgrímssonar.
Ef samið verður í Haag, mun samkomulagið byggjast á friðarsamningi milli sjónarmiða Evrópusambandsins og Bandaríkjanna, en sérsjónarmið Halldórs verða að engu höfð, beinlínis af því að stóru aðilarnir þurfa ekki að kaupa atkvæði til að komast að niðurstöðu í málinu.
Eftir stendur, að utanríkisráðherra Íslands hefur orðið sér og þjóð sinni til minnkunar. Íslendingar eru taldir til umhverfissóða, sem nota undanbrögð og vífilengjur.
Jónas Kristjánsson
DV