Stíflur valda tjóni

Greinar

Alþjóðlega stíflunefndin skilaði á fimmtudaginn áliti sínu til Sameinuðu þjóðanna, Alþjóðabankans, ýmissa ríkisstjórna, orkuveitna og stórfyrirtækja, sem standa að nefndinni og fjármagna hana. Niðurstaðan er, að stíflur vatnsorkuvera séu oft skaðlegar efnahag þjóða.

Niðurstaða nefndarinnar mun leiða til þess, að Alþjóðabankinn og fleiri fjölþjóðlegar lánastofnanir munu framvegis fara miklu varlegar í að lána fé til virkjana vatnsfalla. Langtímaáhrif stíflugerðar verða hér eftir könnuð miklu betur en áður hefur verið gert.

Í sviðsljósi skýrslunnar eru hinar miklu breytingar, sem verða á umhverfinu af völdum stíflugerðar. Meðal annars myndast mikill aur og koltvísýringur, þannig að vatnsorka er ekki lengur talin hin hreina og vistvæna orka, sem margir Íslendingar hafa viljað trúa.

Nefndin hefur einnig kannað efnahagslegar afleiðingar eittþúsund virkjana víðs vegar um heiminn. Niðurstaðan er, að ávinningur hefur verið langt undir væntingum og í ýmsum tilvikum beinlínis neikvæður. Eru þó ekki enn öll kurl komin til grafar í skráningu langtímaáhrifa.

Fyrir Íslendinga er sérstaklega athyglisverð sú niðurstaða nefndarinnar, að pólitískar ástæður, en ekki efnahagslegar, valdi oft virkjunum fallvatna. Fjölyrt sé um hagnað af orkuverunum, en í rauninni sé verið að útvega mönnum vinnu og að þjónusta sérhagsmuni.

Við þekkjum dæmið um pólitískt orkuver frá Grímsárvirkjun á Héraði, sem var svo vatnslítil, að erfitt var að fá vatn í steypuna. Nú stendur enn til að virkja pólitískt á Héraði, svo að menn geti fengið tímabundna vinnu og verktakar aflað sér tímabundinnar veltu.

Af taugaveiklun ráðamanna félagsins Afls fyrir Austurland má ráða, að landauðn verði á Austfjörðum, ef ekki verði af framkvæmum við Kárahnjúka. Af skýrslu Alþjóðlegu stíflunefndarinnar má hins vegar ráða, að byggðaáhrif orkuvera séu síður en svo jákvæð.

Raunar sagði forstjóri Norsk Hydro, þegar hann kom í haust, að fyrirtæki hans hefði áhyggjur af áhrifum Reyðaráls á innviði atvinnulífsins á Austfjörðum, þótt samstarfsaðilar hans á Íslandi virtust ekki hafa þær. Hann fylgist með umheiminum, en íslenzku aðilarnir ekki.

Við sjáum á loftslagsráðstefnunni í Haag og í skýrslu Alþjóðlegu stíflunefndarinnar, hvað er að gerast í umheiminum. Við kostnað af stóriðju þarf að bæta kostnaði við mengunarkvóta og við kostnað af orkuveri þarf að bæta kostnaði við fjölmörg neikvæð áhrif.

Hingað til hefur slíkt ekki verið gert í dæmum þeirra, sem gamna sér við Kárahnjúkaver og Reyðarál. Draumsýnir duga skammt, þegar til kastanna kemur. Þá neyðast málsaðilar til að fara að taka tillit til kostnaðarliða, sem alþjóðasamfélagið er að verða sammála um.

Þegar búið er að reikna allan kostnað í dæmið, verður komið undirverð á orkuna frá Kárahnjúkavirkjun, svo að ekki svarar kostnaði að leggja út í ævintýrið. Eigi að síður munu menn streitast við að reyna að virkja, af því að málið er pólitískt, en ekki efnahagslegt.

Þannig hefur framvinda stóriðjumála verið að staðfesta og mun áfram staðfesta þær skoðanir, sem koma fram í skýrslu Alþjóðlegu stíflunefndarinnar, að slík mál séu keyrð fram af pólitískum hagsmunum, en hinn efnahagslegi ávinningur sé aðeins hafður að yfirvarpi.

Því meiri tími, sem líður, þeim mun fleiri gögn hrannast upp og þeim mun erfiðara verður fyrir menn að leggja allt undir veðmálið um Afl fyrir Austurland.

Jónas Kristjánsson

DV