Ágengir og ábyrgir

Greinar

Við því er að búast, að linir fréttastjórar, sem hafa atvinnu af að líma fréttatilkynningar úr tölvupósti inn á síður dagblaða, finnist berin súr, þegar annars staðar er verið með ærinni fyrirhöfn að grafa upp fréttir, sem skipta lesendur máli og gefa innsýn í þjóðfélagið.

Mikilvægt er fyrir lesendur að átta sig á, um hvað er verið að tala, þegar sögumönnum er kennt um ótíðindi. Þá er oftast blandað saman tvennu, annars vegar viðfangsefnum fjölmiðlanna og hins vegar vinnubrögðum þeirra. Þessir tveir ásar eru engan veginn samhliða.

Það er gilt umræðuefni, hvort fjölmiðlar komi of nálægt einkalífi fólks í leitinni að upplýsingum. En það er allt annað umræðuefni en hitt, hvort upplýsingarnar, sem finnast við gröftinn séu áreiðanlegar eða ekki. Fjölmiðlar geta hæglega verið ágengir og ábyrgir í senn.

Sumir fjölmiðlungar hafa hag af að reyna að koma því inn hjá fólki, að átakalítil kranablaðamennska þeirra sé ábyrg og vönduð, en hinir séu skítugir, sem vinna að uppgreftri staðreynda, er liggja ekki á lausu. Sumir notendur sjá gegnum þessa kenningu, en aðrir ekki.

Ef Washington Post væri gefið út á Íslandi, mundu kranablaðamenn halda fram, að það væri sorprit. Það gerðu raunar stéttarbræður þeirra vestan hafs, þegar blaðið varð frægt af Watergate-skrifum. Þeir töldu blaðið stunda ábyrgðarlitlar æsifréttir um góðborgara.

Mikilvægt er, að lesendur átti sig á, að hvorki er ábyrgðarlítið að grafa eftir staðreyndum né traustvekjandi að bíða eftir fréttatilkynningum, sem streyma úr krana tölvupóstsins. Sem betur fer sýna notkunartölur fjölmiðla, að margir eru þeir, sem átta sig á þessu.

Hér á landi eru ekki fjölmiðlar á borð við þá, sem umdeildastir eru erlendis. Íslenzkir fjölmiðlar eru allir nærfærnari í skrifum en vestrænn meðalfjölmiðill. Þeir, sem halda öðru fram, hafa ekki flutt nothæf dæmi því til stuðnings, enda þyrfti að grafa eftir slíku.

DV hefur leitazt við að fylgja ströngum vinnureglum. Ein helzta þeirra segir, að afla skuli tveggja sjálfstæðra heimilda að uppljóstrunum. Önnur af þeim helztu segir, að ekki skuli skrúfað einhliða frá krana, heldur sé aflað mismunandi sjónarmiða í umdeildum málum.

Kranablaðamenn þurfa engar slíkar vinnureglur. Þeir sitja bara við kranann og taka ekki til hendinni. Til að bæta sér upp hlutskiptið koma þeir sér saman um að kenna sögumönnum um ótíðindin og afla sér þannig siðferðilegrar undirstöðu fyrir aðgerðaleysi sínu.

Lesendur verða auðvitað að velja og hafna og gera það á ýmsa vegu. Óneitanlega eru sumir hallir undir þann draum, að ótíðindi gerðust ekki, ef þau væru látin liggja milli hluta í fjölmiðlum. Aðrir telja ekki henta lífi sínu að fá vitneskju um ýmislegt misjafnt í þjóðfélaginu.

Ef allir hugsuðu eins og kranablaðamenn og fylgismenn þeirra, mundi þjóðfélagið smám saman læsast og grotna niður að innan, án þess að greftinum verði náð út. Á endanum mundi fara illa fyrir þjóð, sem vildi lifa í ímynduðum heimi, þar sem allt er slétt og fellt.

En hinir eru sem betur fer fleiri, sem vilja láta grafa upp staðreyndir, sem ekki liggja á lausu, hvort sem þær eru notalegar eða óþægilegar. Þess vegna nýtur ábyrg og ágeng fréttamennska vaxandi vinsælda um þessar mundir, meðan harðnar á dalnum við suma kranana.

Aðalatriðið er, að sífellt fleiri átti sig á, að ábyrg vinna og ágeng vinna eru engar andstæður, heldur þvert á móti oftar hliðstæður í þjóðfélagi, sem opna þarf betur.

Jónas Kristjánsson

DV