Rex, Askur, jólahlaðborð

Veitingar

Góður og breyttur Rex
Matreiðslan á silfurgráum Rex í Austurstræti 9 hefur gerbreytzt síðan ég rýndi í hana fyrir tveimur árum, þótt gæðin séu svipuð. Hún leitar ekki lengur fjarlægra stranda, heldur fellur í hefðbundinn farveg og fremur traustan. Horfið er tandoori, satay og cajun úr matseðlinum og raunar flest það, sem gerði Rex að sérstæðum matstað.
Í staðinn eru komnir fornlegir réttir á borð við beikonvafinn lambahryggvöðva, sem raunar reyndist fagurlega upp settur í ltilum turnum og einstaklega bragðgóður. Ekki var síðri ofnbakaður lax í ljúfu engifersoði, sem hæfði fiskinum, borinn fram með Japans-sveppum og sætukartöflu-teningum. Rex er enn sem fyrr einn af alvöru-matstöðum borgarinnar.

Markhópurinn sést ekki
Fyrir tveimur árum lét ég í ljósi efasemdir um, að vönduð matreiðsla væri við hæfi á ímyndarhönnuðum veitingastað fyrir markhópa, svo sem tíðkast nú til dags. Fræga og fagra fólkið kæmi ekki til að pósera, ef aðrir gestir sýndu því minni áhuga en matnum. Of góður kokkur yrði rekinn til að trufla ekki þjóðfélagslega ímynd staðarins.
Skipt hefur verið um kokk í Rex, en sá nýi er góður líka, svo að markhópurinn lætur á sér standa. Við snæddum því ein sem jafnan endranær innan við risaglugga í silfurgráu umhverfi, sem er næstum því eins kuldalegt og áður, þótt gluggatjöld byrgi núna sýn út í stormgjá Austurstrætis fyrir utan og götuóeirða-felliveggi Ríkisins handan götunnar.

Askur er alltaf eins
Því meira sem krukkað er í innréttingar á steikhúsinu Aski við Suðurlandsbraut 4, þeim mun meira er staðurinn eins og hann hefur verið síðan svona staðir komust í tízku fyrir nákvæmlega tveimur áratugum. Salatbarinn er alltaf eins og matseðillinn er alltaf eins, nákvæmlega eins og framsækið fólk vildi hafa þetta fyrir 20 árum. Viðskiptavinirnir eru líka hinir sömu, en þeir hafa elzt.
Margt er gott um Ask að segja. Innréttingar eru ekki eins stirðar og þær voru, til dæmis hefur sófi við langvegg vikið fyrir básum. Glaðleg þjónusta er betri en hún hefur oft áður verið. Nú eru komnar hnappar á borðin til að kalla á þjónustu, ef menn fara að ókyrrast.
Súpa dagsins var bragðsterk tómat- og grænmetissúpa með litlum rækjum, sem höfðu stífnað og þornað. Salatborðið var ekki spennandi, en hafði þó að geyma nýsoðin egg og ýmiss konar brauð. Grillaður steinbítur dagsins bætti þessa máltíð, nákvæmlega eldaður og fallega upp settur með góðu sítrónusoði. Meðlætið var öllu lakara og einkenndist af ofsöltuðum grænmetisþráðum.

Hlaðborð á undanhaldi
Ánægjulegt er að sjá, hve mörg veitingahús eru aftur farin að hafna jólahlaðborðum og treysta sér til að hafa opið á venjulegan hátt á jólaföstunni fyrir gesti og gangandi. Hlaðborðin eru úrelt, enda veit fólk þá fyrst, hvað er ætt á borðunum, þegar það er orðið svo belgt, að það getur ekki nýtt sér þekkinguna.

Jónas Kristjánsson

DV