Allt mun breytast

Greinar

Þeir, sem nú fæðast inn í nýja öld og nýtt árþúsund, munu sennilega flestir lifa svo lengi, að þeir nái að deyja frá allt öðruvísi heimi en við þekkjum núna. Breytingarnar verða enn meiri en þær hafa orðið á æviskeiði þeirra, sem fæddust fyrir einni öld og urðu langlífir.

Stórmál 20. aldar munu víkja fyrir öðrum stórmálum á 21. öld. Kotbúskapur strjálbýlis hefur þegar vikið fyrir háskólagreinum þéttbýlis, svo að byggðastefna mun síður flækjast fyrir okkur í framtíðinni. Veiðimennska sjávarútvegs mun fljótt breytast í skipulegt fiskeldi.

Með farsælli skipan lífeyrismála mun barátta kynslóðanna ekki verða hörð á öldinni. Þegar hver safnar sjálfur sínum lífeyri, mun breytt aldursskipting ekki leiða til pólitískra illdeilna um tekjuskiptingu. Stéttabarátta 20. aldar er þar á ofan nánast horfin um þessi aldamót.

Baráttan um auðlindirnar var hörð undir lok aldarinnar, en mun ekki einkenna nýja öld vegna ört minnkandi vægis sjávarútvegs. Baráttan um réttlætið var hörð undir lok aldarinnar, en mun ekki einkenna nýja öld vegna aukinnar auðsældar og betri trygginga.

Við sjáum nú þegar, að gömul flokkaskipting á grunni baráttu milli byggða, atvinnuvega, aldurshópa, kynja og stétta, hefur leitt til miðjumoðs, sem þýðir í raun, að gömlu ágreiningsefnin eru að deyja. Til sögunnar koma ný ágreiningsefni, sem flokkakerfið á eftir að höndla.

Þátttaka okkar í fjölþjóðlegu samfélagi auðveldar okkur aðlögun að nýjum tíma. Stóru þjóðfélögin á Vesturlöndum taka yfirleitt miklu fyrr en við á vandamálum og búa til margvíslega ramma, sem Íslendingar verða að hlíta og vilja hlíta til þess að geta áfram skipt við útlönd.

Umhverfi mannkyns verður eitt af allra stærstu málum 21. aldar. Í auknum mæli verða þjóðir heims að taka saman höndum til að hindra varanleg umhverfisslys. Fyrstu skrefin hafa verið stigin, svo að ekki er ástæða til að efast um, að þjóðum heims muni takast þetta.

Lok síðustu aldar einkenndust af hatrömmum ágreiningi Íslendinga í umhverfismálum. Allra fyrstu loturnar hafa þegar verið háðar í baráttu, sem mun í auknum mæli kljúfa þjóðina í ósættanlegar fylkingar, sem munu berjast um pólitísk völd í landinu á næstu áratugum.

Ný stéttaskipting mun leysa eldri skiptingar af hólmi. Þjóðfélagið mun í auknum mæli skiptast í fjölmennari hóp hinna afskiptalausu og fámennari hóp hinna virku. Hinir afskiptalausu munu deyja lifandi inn í sjónvarpsskjáinn og sólarströndina og einkalífið yfirleitt.

Hinir virku munu hafa aðgang að mun betri þekkingu á nýhafinni öld en forverar þeirra höfðu á hinni síðustu. Þeir verða vel í stakk búnir til að stjórna vestrænu nútímasamfélagi á skynsaman hátt í umboði hinna, sem sitja fyrir framan skjáinn og hafast ekki að.

Fólk er þegar að öðlast færi á lífsstíl, sem felur í sér bætt mataræði, góða hreyfingu, aukin afskipti af samfélaginu og annað það, sem gefur lífinu fyllingu og tilgang. Það verða ekki lengur fáir útvaldir, heldur fjöldi manns, sem lifir lengi og lifir vel fram í háa elli.

Lífsstíll hinna aðgerðalausu mun hins vegar verða margfalt dýrari vandi á nýrri öld. Sífellt dýrari aðgerðum og dýrari lyfjum verður beitt til að hjálpa þeim, sem missa heilsuna framan við sjónvarpið og eru ófærir um að taka ábyrgð á eigin lífi, eigin heilsu og eigin afskiptaleysi.

20. öldin snerist um að skaffa og skipta. Hin 21. mun hins vegar snúast um nýjan lífsstíl og nýja stéttaskiptingu og ný viðhorf til stöðu mannkyns í náttúrunni.

Jónas Kristjánsson

DV