Kúvending í Noregi

Greinar

Óhjákvæmilegt er, að það hafi áhrif á Íslandi, þegar norska ríkisstjórnin hættir við að reisa þrjú vatnsorkuver þar í landi á þeim grundvelli, að stórvirkjanir séu orðnar úreltar og skaði umhverfið of mikið. Nægir að benda á, að norska ríkið á 40% í Norsk Hydro.

Hingað til hefur flokkur jafnaðarmanna í Noregi verið flokkur stóriðjusinna, en miðflokkarnir haft meiri áhuga á umhverfisverndun. Hin óvænta yfirlýsing Jens Stoltenbergs forsætisráðherra í nýársávarpi sínu markar því þáttaskil í umhverfismálum Noregs.

Nú, þegar stærsti stjórnmálaflokkurinn hefur snúið við blaðinu, má heita að öll breiðfylking norskra stjórnmálaflokka hafi snúist á sveif með umhverfissinnum. Íslenzkir umhverfissinnar mega því vænta hljómgrunns, þegar þeir gagnrýna gerðir Norsk Hydro á Íslandi.

Holur hljómur er í tilraunum Norsk Hydro til að þykjast aðeins vera aðili að byggingu álvers á Reyðarfirði en ekki stórvirkjana, sem því fylgir. Augljóst er, að Kárahnjúkavirkjun verður því aðeins reist, að Norsk Hydro vilji verða einn helzti eigandi Reyðaráls.

Norska stjórnin verður sökuð um tvískinnung, ef hún reynir að hreinsa til í stóriðjunni heima fyrir, en lætur viðgangast, að norskt ríkisfyrirtæki notfæri sér græðgi nokkurra aðila í þeim hluta þriðja heimsins, sem heitir Ísland. Hún mun segja Norsk Hydro að fara varlega.

Íslenzkir umhverfissinnar eiga því töluverð sóknarfæri í Noregi með aðstoð norskra umhverfissinna. Vakin verður athygli á, hvernig Norsk Hydro hefur hingað til getað leikið tveimur skjöldum og hagað máli sínu eftir aðstæðum og viðmælendum hverju sinni.

Það bætir enn stöðuna, að sá framkvæmdastjóri Norsk Hydro, sem áður gaf umhverfisvænstu yfirlýsingar fyrirtækisins um Reyðarál, er núna orðin aðalforstjóri fyrirtækisins. Það eykur líkur á, að fyrirtækið stígi enn varfærnari skref en það hefur gert hingað til.

Áramótaávarp Jens Stoltenbergs sýnir himin og haf milli nýrra sjónarmiða, sem ríkja þar í landi og suður eftir allri Evrópu, og gamalla sjónarmiða, sem enn ríkja í þriðja heiminum og á Íslandi, þar sem stundargræðgi veiðimannaþjóðfélagsins er enn við völd.

Að þessu leyti eins og svo mörgu öðru hefur Ísland staðnað. Meðan Evrópa er á fleygiferð inn í 21. öldina er Ísland enn að berjast við vandamál 19. aldar. Á 21. öld verður það mannauðurinn, sem ræður gengi þjóða, en á 19. öld voru það auðlindir lands og sjávar.

Áramótaávarp norska forsætisráðherrans sýnir einnig, að þar í landi hefur byggðastefna vikið fyrir öðrum og brýnni hagsmunum þjóðfélagsins. Norðmenn reisa ekki lengur orkuver og álver til að þjóna staðbundnum hagsmunum gegn umhverfishagsmunum heildarinnar.

Þetta eru mikil tímamót, því að hingað til hefur Noregur gengið allra ríkja lengst í byggðastefnu. Henni hefur nú verið skákað með áhrifamiklum hætti, sem hlýtur að enduróma á Íslandi, þar sem margir hafa leitað fyrirmynda í Noregi að byggðastefnu fyrir Ísland.

Fréttirnar frá Noregi eru áfall fyrir hvort tveggja í senn, byggðastefnu og stóriðjustefnu á Íslandi, hvað sem einstakir ráðherrar og hagsmunaaðilar kunna að segja. Þær eru hvatning öllum þeim, sem vilja vekja þjóðfélagið af 19. aldar áráttu og halda inn í 21. öldina.

Uppspretta auðs, velmegunar og lífsgæða Íslendinga á 21. öld mun liggja í virkjun mannauðs, en ekki í 19. aldar stóriðju og öðrum spjöllum lands og sjávar.

Jónas Kristjánsson

DV