Að orðnum hlut

Greinar

Leiðarar DV um aðgerðir bandarískra stjórnvalda til að varðveita friðhelgi heilsufarsupplýsinga um fólk hafa vakið reiði ráðamanna deCode Genetics, sem vilja ekki, að varpað sé skugga á hina vandamálafríu mynd, sem þeir gefa af væntanlegu gagnasafni sínu.

Aðgerðir brezku ríkisstjórnarinnar í einkamálaþætti heilsufarsupplýsinga voru einnig til umfjöllunar í margræddum leiðara DV. Þar gera stjórnvöld ráð fyrir, að verndin bili, upplýsingar berist til tryggingafélaga og vinnuveitenda og geti valdið fólki fjárhagstjóni.

Brezka ríkisstjórnin hefur sérstaklega tekið á þessum þætti, hvernig fólki verði bætt, ef það fær lakari tryggingu eða lakari vinnu út á arfgenga sjúkdóma í ættinni eða jafnvel hvorki tryggingu né vinnu. Þar hyggst ríkið taka afleiðingum gerða sinna.

Hér á landi var einkaréttur deCode keyrður í gegn án þess að gert væri ráð fyrir þeim möguleika, að illa færi. Það er í samræmi við þá pólitísku venju hér á landi að gera í bjartsýni ráð fyrir, að allt fari á bezta veg og gera engar ráðstafanir til að mæta hugsanlegum vanda.

Hér á landi hafna stjórnvöld til dæmis umhverfismati á sjókvíaeldi á þeim forsendum, að eldislaxinn ógni ekki umhverfinu, sýkist ekki og sleppi ekki úr kvíunum. Samt eru til rannsóknir í nágrannalöndum okkar, sem sýna hið gagnstæða, að þessi vandamál eru stórfelld.

Miklu nær væri að gera ráð fyrir vandamálum strax í byrjun og reyna að haga málum frá upphafi á þann veg, að auðveldara en ella sé að bregðast við ótíðindum. Það hefðu íslenzk stjórnvöld átt að gera í gagnagrunnsmálinu og ættu nú að gera vegna laxeldis í sjókvíum.

Bjartsýni er góðra gjalda verð, en hún má ekki verða svo hamslaus, að menn gleymi varúðarráðstöfunum.

Jónas Kristjánsson

DV