Sextíu dollarar orðnir níu

Greinar

Samkvæmt nýju, bandarísku reglugerðinni um verndun persónulegra upplýsinga um heilsufar fólks mega fræðimenn nota upplýsingarnar til að stunda rannsóknir, en alls ekki afhenda utanaðkomandi gagnabönkum á borð við deCode Genetics slíkar upplýsingar

Blaðurfulltrúi deCode Genetics fer með rangt mál um þetta atriði eins og önnur atriði málefnisins. Á sama tíma fer hann með rangt mál um önnur atriði, sem varða hagsmuni fyrirtækisins, er hann vinnur fyrir, enda er það hlutverk blaðurfulltrúa að styðja sína menn.

Í kranablaðamennsku-morgunþætti Ingólfs Margeirssonar á Rás 2 á miðvikudag hélt blaðurfulltrúinn óátalið fram, að gengi hlutabréfa deCode hafi til áramóta ekki lækkað meira en Nasdaq-vísitalan. Þetta er röng fullyrðing, gengi bréfanna hefur lækkað miklu meira.

Í öllum þessum málum er blaðurfulltrúinn að gæta hagsmuna fyrirtækis, sem frá upphafi hefur ekki greint rækilega milli ímynda og raunveruleika, fyrirtækis, sem í fyrra hafði lag á að láta fólk borga sextíu dollara fyrir hlutabréf, sem nú eru aðeins níu dollara virði.

DeCode Genetics reynir að gera lítið úr áhrifum bandarísku reglugerðarinnar um verndun persónulegra heilsufarsupplýsinga, af því að fyrirtækið stendur í samningum við íslenzkar heilbrigðisstofnanir og vill ekki, að slæmar fréttir frá útlöndum trufli samningaferlið.

Almennt er skynsamlegt fyrir fólk að fara varlega í að trúa gæzlumönnum sérhagsmuna umfram þá, sem engra hagsmuna hafa að gæta í umræðuefninu.

Jónas Kristjánsson

DV