Ekki var skrifstofa borgarverkfræðings fyrr búin að reikna, að flugvöllur á uppfyllingu á Lönguskerjum væri langsamlega dýrasti kostur innanlandsflugs en skipulagsstofa Reykjavíkur leggur fram hugmynd um 1.200 íbúða byggð og einn menntaskóla úti í sjó við Eiðisgranda.
Áður var bæjarstjórn Garðabæjar farin að gæla við hugmyndir um uppfyllingu fyrir íbúðabyggð í Arnarnesvogi. Allar þessar tillögur og hugmyndir eru hluti þess álits sumra skipuleggjenda, að byggð sé ekki nógu þétt og að það megi bæta með því að byggja úti í sjó.
Á öllu þessu svæði hefur land verið að síga og mun áfram síga á næstu áratugum og öldum. Í stórflóðum gengur sjór á land og spillir strönd. Seltjarnarnes hefur minnkað um meira en helming á þremur öldum eins og sjá má af gömlum sjókortum danska flotans.
Með því að dæla efni í uppfyllingar upp úr sjó verður bratti sjávarbotnsins við strandlengjuna meiri en hann var áður. Hafið fær því greiðari aðgang að ströndinni, svo sem komið hefur í ljós á Kjalarnesi. Þar hefur sjór gengið á land vegna dælingar á sandi.
Í ráðagerðum landvinningamanna fer lítið fyrir skilningi á landsigi og landbroti og afleiðingum brattara landgrunns. Mikilvægt er, að sérfræðingar á þessu sviði verði kallaðir til, áður en arkitektar við teikniborð fara að framkvæma drauma sína um byggðir úti í sjó.
Ekki verður heldur séð, að hugmyndafræðingar geri sér sómasamlega grein fyrir áhrifum fólksfjölgunar á þrönga innviði samgangna í gömlum hlutum borgarinnar. Umferðin eykst og gamlar götur verða of þröngar. Á endanum þarf að kaupa hús til niðurrifs.
Hringbraut er þegar orðin of þröng frá Gamla-Garði að Ánanaustum. Þar hefur orðið að reisa langar girðingar á miðri götu til að fæla gangandi fólk frá að fara sér að voða í umferðinni. Með 1.200 íbúðum og menntaskóla í Eiðisvík þarf að rífa hús til að breikka Hringbraut.
Ef reyna á að meina fólki að nota Hringbraut til að komast út úr umferðargildrunni og beina því á Mýrargötu, þarf einnig þar að rífa hús, svo að fólk komist greiðlega lengri leiðina austur Sæbraut. Þétting byggðar kallar ætíð á aukinn þrýsting á gamla innviði borga.
Miklu einfaldara er að byggja þétt á nýjum svæðum, þar sem hægt er frá upphafi að gera ráð fyrir greiðum samgöngum. Þegar byggt er þétt ofan í gömlum svæðum er verið að leggja nýjar skyldur á gamla innviði, sem þeir voru ekki hannaðir á sínum tíma til að þjóna.
Uppfyllingar í sjó á Granda og Örfirisey sýna, hvað gerist, ef framkvæmdar verða ráðagerðir um 1.200 íbúðir og menntaskóla í Eiðisvík. Umferðin frá nýbyggingunum við Fiskislóð og Hólmaslóð hefur sótt með miklum þunga inn á Hringbraut og stíflað hana á annatímum.
Hugmyndafræði þéttari byggðar er tízkufyrirbæri, sem hefur ekki fengið næga umfjöllun. Miklu nánar þarf að rýna í óskir fólks um ýmis búsetuform og kostnað sveitarfélaga af þessum búsetuformum, svo og kostnað þeirra af nauðsynlegum breytingum á innviðum sínum.
Þegar byggðaþéttingin er komin út í öfgar landfyllinga, er brýnt að fara að stinga enn fastar við fótum og krefjast þess, að menn kynni sér betur, hvernig sjór gengur á land á höfuðborgarsvæðinu og hvernig uppfyllingar með brattari hafsbotni kalla á gagnsókn hafsins.
Ráðagerðir um landfyllingar á höfuðborgarsvæðinu eru vanhugsaðar og illa rökstuddar. Þær gefa alls ekki tilefni til framkvæmda á næstu áratugum.
Jónas Kristjánsson
DV