Perlan, Carpe Diem

Veitingar

Perlan er sólkerfi
Perlan á Öskjuhlíð er meira en geimstöð. Hún er sólkerfi, þar sem svigrúmið um hvert borð er veröld út af fyrir sig og fyrir utan glugga glittir í önnur sólkerfi, hugsanlega með lífi á einhverjum hnöttum. Þetta er þáttur aðdráttarafls Perlunnar, dýrasta, fínasta og sérstæðasta matsalar landsins, þar sem fólk nýtur afbragðs móttöku og þjónustu og fær fyrirtaks forrétti og eftirrétti.

Biluð smáatriði
Eins og oftar áður eru það smáatriði í aðalréttum, sem bila í Perlunni og spilla heildarmyndinni. Með glóðaðri nautalund var borinn fram þurr og harður kjötkökkur, tæplega tomma á kant, sem virðist hafa heitið uxabrjóst á matseðlinum. Ef honum hefði verið sleppt, hefði rétturinn í heild verið frábær. Undir andabringu var hörð plata af brenndum kartöfluþráðum. Ef henni hefði verið sleppt, hefði rétturinn í heild verið frábær.

Minnisstæðir réttir
Fínlegt villisvepparisotto með spínati og parma-osti bráðnaði á tungu. Bleik laxahrogn á rússneskum blini-pönnukökum voru annar góður forréttur. Mangókrap í freyðivíni var fínt og flott. Klassiskur eftirréttur er créme brûlèe búðingur með karamelluskorpu, betur gerður en víðast annars staðar. Enginn vandi var að fá blandaða ávexti og ber með rjóma fyrir þá, sem reyna að forðast sykurfyllerí eftirrétta.

Bocuse gabbar kokkana
Þrátt fyrir góða kosti Perlunnar vekur hún mér ekki þá kennd, að of langt sé síðan ég kom þar síðast. Mér finnst hún vera köld umgerð um skrautlega rétti að hætti Bocuse, sem er snjall auglýsingamaður í dulargervi kokks í úthverfi Lyon. Ég hef tvisvar borðað þar og nenni því ekki aftur. En hann er duglegur við að búa til Bocuse-verðlaun og aðra markaðssetningu og gabb, sem íslenzkir matreiðslumenn hlaupa á eftir. Af hverju fóru þeir ekki í myndlistarskóla?

Fisklykt á Carpe Diem
Sérstætt er, að veitingahús skuli geta boðið gestum þídda og gamla ýsu í senn. Frystingin á að varðveita ferskleikann, þótt hún eyðileggi ýsubragðið, og á að geta komið í veg fyrir, að fiskur verði svo gamall, að hann fari að lykta svo, að karrísósan megnaði ekki að milda lyktina. En þetta tókst eldhúsinu á Carpe Diem í Hótel Lind við Rauðarárstíg 18 í hádeginu um daginn. Þar á ofan voru ofbökuðu kartöflurnar upphitaðar.

Fínlegt umhverfi
Aðrir þættir á Carpe Diem sýndu ekki merki slóðaskaparins í eldhúsinu. Allt var uppdúkað og fínt í hádeginu, jafnvel tauþurrkur á borðum og tindrandi fín vatnsglös, sem eiga að hæfa fínum hótelsal. Salatborðið var að vísu lítið, en stóð ekki öðrum slíkum á sporði í fjölbreytni. Ég gat því bætt mér upp ýsuna og kartöflurnar með hollustufæði. En grænmetissúpan virtist hveitileg, svo að ég lagði ekki í hana, og brauðið var bara hvítt snittubrauð.

Jónas Kristjánsson

DV