Rijsttafel í Amsterdam
Ég skal játa, að mér finnst ég eiga dálítið í indónesíska matstaðnum Sama Sebo í Amsterdam. Þegar leiðsögubók mín um borgina kom út í fyrstu útgáfu árið 1984, setti ég hann á stall sem uppáhaldsstað minn í borginni. Þá var Sama Sebo óþekktur staður, en er nú kominn í öll leiðsögureit, þar á meðal rauða Michelin. Sérgrein staðarins var og er Rijsttafel, sem er veizluborð um það bil tuttugu smárétta frá Indónesíu.
Indrapura er ný stjarna
Vegna þessarar forsögu er mér þungbært að viðurkenna, að Sama Sebo hefur ekki þolað frægðina. Á allra síðustu árum hefur hann orðið að sálarlausri verksmiðju með lélegri matreiðslu og ruddalegri þjónustu. Nú orðið fer ég ekki þangað til að fá mér Rijsttafel, heldur í veitingahúsið Indrapura, sem er notalegur staður vandaðrar matreiðslu frá Indónesíu, vel í sveit settur við Rembrandtsplein 42, sími 623 7329. Rijsttafel-veizla með öllu kostar um 85 gyllini á mann.
Pönnukökur Upstairs
Það má nánast teljast til helgisiða í hverri heimsókn til Amsterdam að klifra upp þröngan hænsnastigann í pönnukökuhúsið Upstairs við Grimburgwal 2, rétt við Rokin. Þar komast ekki nema tólf manns fyrir í einu og sitja þröngt. Risastór engifer-pönnukaka að hollenzkum hætti kostar 13 gyllini, en hægt er að fá ótal umfangsmeiri fyllingar.
Café American og Mata Hari
Annar pílagrímastaður er Art Nouveau kaffistofan á jarðhæð American hótelsins við Leisekade 97, rétt við Leidseplein, þar sem haldin var brúðkaupsveizla njósnakvendisins Mata Hari. Þetta er einn helzti stefnumótastaður miðborgarinnar, kjörinn til að fá sér kaffi og tertu og virða fyrir sér aldargömlu innréttingarnar, frostglerjaðar ljósakrónur, víðfeðm bogarið og steinda glugga. Kaffi og terta kosta 12 gyllini.
Hefbundinn Oesterbar
Beztu sjávarréttastaðirnir í Amsterdam eru enn hinir sömu og þeir voru í bókarútgáfunni frá 1992. Beztur er líflegur og berangurslegur Oesterbar, þægilega vistaður við Leidseplein 10, sími 626 3463, að vísu með heldur grófari þjónustu en áður. Miklar vinsældir hafa hins vegar ekki skaðað matreiðsluna neitt.
Sólflúra og þykkvalúra
Í Oesterbar er hægt að fá hina ljúfustu fiska og sjávardýr, sem ekki veiðast hér við land, svo sem ostrur, sólflúru og þykkvalúru. Bezt er að panta einfalda matreiðslu, til dæmis grillun, því að þá er eldunartíminn undantekningarlaust hárnákvæmur. Matur kostar um 120 gyllini á mann, en getur farið upp í 200 gyllini, ef menn fá sér dýra rétti á borð við humar.
Jónas Kristjánsson
DV