Fyrir hundrað árum datt mönnum hvorki í hug, að hundrað árum síðar mundu milljón manns geta ferðast í loftinu á sama tíma á mörg hundruð kílómetra hraða, né að þá mundu menn bera á sér tæplega tvö hundruð gramma farsíma í þráðlausu sambandi um allan heim.
Fyrir hundrað árum datt mönnum hvorki í hug, að hundrað árum síðar mundi mörgum banvænum faraldssjúkdómum hafa verið útrýmt, né að menn gætu séð frumeindir í smásjá, hvað þá að mannkynið hefði búið til meira en nóg af sprengjum til að útrýma sjálfu sér.
Við stöndum að því leyti í sömu sporum hundrað árum síðar, að við höfum ekki hugmynd um, hvaða uppfinningar muni verða mikilvægar í lífi fólks á nýlega hafinni öld. Ef einhver gæti skyggnzt fram á veg og sagt okkur, hvað hann sæi, mundum við telja hann vera ruglaðan.
Fyrir hundrað árum höfðu einstaklingar, fyrirtæki og þjóðir orðið rík á kolum og stáli, svo og gufuknúnum lestum og skipum. Þá voru Bretar, Frakkar og Þjóðverjar í fararbroddi. Nú til dags er lítil framleiðni af vinnu og peningum, sem lögð eru í slíkar atvinnugreinar.
Nítjánda öldin hafði verið kolaöld og tuttugasta öldin varð olíuöld. Hún varð líka öld vinnslulína og framleiðni. Bandaríkin tóku við sem forusturíkið. Þar stórefnuðust einstaklingar, fyrirtæki og þjóðfélagið í heild á því einu að verða fyrst til að koma nýjungum á framfæri.
Tölvu- og fjarskiptaöld er nýlega hafin. Bandaríkin hafa á síðustu árum efnast enn meira en áður á forustu í tölvum og hugbúnaði og Evrópa hefur fylgt í humátt á eftir með forustu í ýmsum þáttum fjarskipta. Aðalatriðið er að vera fljótur að tileinka sér nýja möguleika.
Augljóst er, að því eldri, sem atvinnugreinarnar eru, þeim mun minna gefa þær af sér. Það er aðeins í nýjustu greinunum, að verðmæti peninga og vinnu margfaldast á skömmum tíma. Mikilvægt er fyrir einstaklinga, fyrirtæki og þjóðir að koma sér rétt fyrir í þessu mynztri.
Landbúnaður er fyrir löngu orðinn næsta arðlaus og ekki má heldur búast við miklu af sjávarútvegi, þegar líður fram á nýja öld. Sama er að segja um orkufreka málmvinnslu og þungaiðnað. Framleiðsla skipa og bíla, svo og áls og góðmálma, er þegar að flytjast til þróunarlanda.
Á nýlega hafinni öld munu Íslendingar ekki hafa neitt upp úr landbúnaði og fiskveiðum, orkuvinnslu og málmvinnslu. Mestur hluti íslenzks atvinnulífs í upphafi 21. aldar gefur enga möguleika á umtalsverðri framleiðni vinnu og fjármagns. Þetta eru greinar fortíðarinnar.
Í þessu mynztri skiptir nánast engu, hvort menn framleiða lambakjöt eða ál, sem eru dæmigerð verkefni vanþróaðra þjóða. Hvort tveggja er nánast arðlaust á tíma sífelldra breytinga, þar sem vaxtarbroddurinn einn gefur af sér þolanlega framleiðni vinnu og fjármagns.
Hugbúnaðargerð er eina íslenzka atvinnugreinin, sem á framtíð fyrir sér á nýrri öld. Við getum haft rökstuddan grun um, að eindafræði muni fljótlega skapa margfalt öflugri tækifæri en hugbúnaðargerð. En þetta eru bara brot af því, sem mun einkenna líf okkar á nýhafinni öld.
Bezt í stakk búnar til að nota ófyrirséð tækifæri eru þjóðirnar, sem bezta hafa menntun og sveigjanlegasta símenntun. Þær munu grípa tækifærin, hver sem þau verða hverju sinni. Þær búa yfir innri sveigjanleika og röskunarvilja til að skipta sífellt um atvinnugreinar.
Ef okkur vegnar vel á nýrri öld, verður það af störfum, framtaki og fjárfestingu í atvinnugreinum, sem við höfum alls ekki hugmynd um nú, hverjar muni verða.
Jónas Kristjánsson
DV