Ótíðindum hrósað

Greinar

Eftir áratuga rannsóknir á hungri í heiminum telur nóbelsverðlaunahafinn Amartya Sen, að frjáls fjölmiðlun hindri hungursneyð í þriðja heiminum. Hann skýrði ritstjórum vestrænna fjölmiðla frá þessu í erindi á aðalfundi þeirra í Delhi í Indlandi fyrir skömmu.

Sen er prófessor í hagfræði við Harvard-háskóla og hlaut nóbelsverðlaunin í hagfræði árið 1998 fyrir rannsóknir á orsökum hungursneyðar. Hann fæddist í Indlandi árið 1933 og var vitni að hungursneyðinni í Bengal árið 1943, þegar þrjár milljónir manna fórust.

Niðurstöður Sens hafa verið notaðar víða um þriðja heiminn til að hamla gegn hungursneyð og vinna gegn afleiðingum hennar. Með því að veita honum nóbelsverðlaun var vakin athygli á þeirri hagfræði, sem snýst ekki um auðþjóðir heims, heldur hinar fátæku.

Sen telur, að hungursneyðin í Bengal 1943 hafi stafað af skorti á lýðræði og frjálsri fjölmiðlun. Brezk stjórnvöld settu fréttabann á vondu fréttirnar af feimnismálinu. Það bann var rofið af indverska dagblaðinu The Statesman í Kalkútta, sem vakti yfirvöld af aðgerðaleysi.

Fréttirnar af hungursneyðinni leiddu til heitra umræðna í brezka þinginu og síðan til opinberra gagnaðgerða, sem stöðvuðu framgang hennar á nokkrum vikum. Sen telur, að fréttir af hörmungum fólks leiði til lausnar vandans, en þögnin framlengi þær hins vegar.

Sen tekur annað dæmi af hungursneyðinni í Kína árin 1958­1961, þegar tugir milljóna fórust á þremur árum, af því að stjórnvöld settu svo harðskeytt fréttabann á feimnismálið, að þau fengu sjálf ekki réttar upplýsingar og vanmátu því stöðuna mánuðum og árum saman.

Fréttabannið olli því, að ráðamenn á hverjum stað fyrir sig héldu, að vandræðin væru aðallega í þeirra héraði. Þeir fölsuðu því tölur, sem þeir sendu landstjórninni, til þess að þeirra hérað liti ekki verr út en önnur. Samanlagt ollu þessar falsanir því, að birgðir voru ofmetnar.

Síðar kom í ljós, að miðstjórnin í Kína taldi, að til væri í landinu hundrað milljónum tonna meira af korni, en raunverulega var til. Þannig leiddi ritskoðun stjórnvalda til þess, að þau fengu sjálf um stöðu mála skelfilega rangar upplýsingar, sem framlengdu vandann í þrjú ár.

Svipaða sögu má segja af sífellt endurtekinni hungursneyð í Sovétríkjunum á fjórða áratugnum, í Kampútseu á áttunda áratugnum og í Afríkulöndum ýmissa einræðisherra á síðustu þremur áratugum tuttugustu aldar. Alls staðar skorti lýðræði og frjálsa fjölmiðlun.

Niðurstaða Sens af rannsóknum á hungursneyð víðs vegar í þriðja heiminum er sú, að hvergi hafi orðið hungursneyð, þar sem fréttaflutningur er frjáls. Frægasta dæmið er auðvitað Indland sjálft, sem hefur ekki þurft að þola hungursneyð, síðan fjölmiðlun varð þar frjáls.

Athuga þarf, að hungursneyð er ekki sama og hungur. Hugtakið hungursneyð nær yfir fjöldahungur vegna svæðisbundins matarskorts. Í Indlandi eru margir svangir vegna fátæktar, en þar ríkir ekki hungursneyð, af því að í hverju héraði er til nógur matur fyrir alla.

Sen er ekki að hrósa vinsælli blaðamennsku nútímans, sem felst í kranablaðamennsku, kostunarmennsku og kjaftavaðli ljósvakamiðla, kynóra-, frægðarfólks- og gægjublaðamennsku tímarita, né í fréttavændi og leigublaðamennsku í blaðurfulltrúaþjóðfélagi nútímans.

Sen er að hrósa hinni gamaldags fréttamennsku, sem felst í að segja frá ótíðindum og draga ekkert undan, þótt atvinnuhræsnarar umhverfisins fussi og sveii.

Jónas Kristjánsson

DV